„Fram hefur komið í samskiptum milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé hægt að verða við ábendingu Persónuverndar í þessu tilviki.“
„Ég spyr því hæstvirtan ráðherra hvers vegna Sjúkratryggingastofnun eigi að fá þetta svigrúm til að í raun og veru að ganga gegn réttindum skráðra einstaklinga. Hvers vegna er þetta orðað á þennan hátt?“
Það var Halldóra Mogensen, Pírati og formaður velferðarnefndar Alþingis, sem spurði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þegar rætt var frumvarp til breytingar á lögum um Sjúkratryggingar Íslands.
Halldóru þykir að Sjúkratryggingum verði heimild of mikil upplýsingaöflun um heilbrigðissögu fólks.
„Ástæðan fyrir því að orðalagið er með þeim hætti sem háttvirtur þingmaður vísar réttilega til, er ákveðinn ómöguleiki. Það kann að vera vandkvæðum bundið að nálgast það með þeim hætti vegna þess að það er ekki alltaf að frumkvæði einstaklingsins sjálfs heldur að frumkvæði stofnananna sjálfra sem leitast er við að uppfylla lagaskyldu og veita einstaklingnum þau réttindi sem þeir eiga rétt á,“ svaraði Svandís.
Halldóra vill að farið verði að ráðleggingum Persónuverndar. „Ég hefði talið skynsamlegt að fylgja tilmælum og tillögum Persónuverndar við gerð lagabreytinga á grundvelli persónuverndarlaga.“
„Fram hefur komið í samskiptum milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé hægt að verða við ábendingu Persónuverndar í þessu tilviki,“ svaraði Svandís.
En hvað er til ráða?
Svandís: „Ég tel að full ástæða sé til að fara betur í saumana á því atriði sem háttvirtur þingmaður nefnir í meðförum nefndarinnar, ekki síst að fá Sjúkratryggingar Íslands á fund nefndarinnar til að ræða þessar áhyggjur. Því að það skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé á haldið og gætt sé að öllum varúðarsjónarmiðum þegar um er að ræða svo viðkvæman þátt sem persónuupplýsingar, ekki síst á heilbrigðissviði. Því að það er auðvitað þar sem persónuupplýsingarnar eru viðkvæmastar. Eins og þeir þekkja til sem leitast hafa við að stiga viðkvæmni þeirra upplýsinga sem til eru um einstaklinga í kerfinu eru svo sannarlega upplýsingar á heilbrigðissviði sem eru þær viðkvæmustu sem um ræðir. Þess vegna þarf að halda sérstaklega vel utan um þær. “