- Advertisement -

Hundurinn tók undir hvert orð

Senjora Alba, sem er Súsanna Svavarsdóttir í hinu raunverulega lífi, býr á Spáni og færir okkur fréttir af hversdagslífinu þar.

Súsanna Svavarsdóttir.

Írena, þessi sem vinnur við að anda súrefni fimmtán tíma á dag (í húsinu skáhallt á móti til vinstri) er hverfishaninn. Það vaknar allt hverfið þegar hún stígur út á sína verönd í bítið og býður júníversinu góðan daginn. Desibelin í þessari sundurreyktu rödd eru með ólíkindum. Enda álítur hundurinn hennar Rose (sem býr í sundinu á bak við Albahjónin) alltaf að þetta sé kjú um að hann eigi að fara að gelta. Á dögunum var heill flokkur að flísa og fúga á lóðinni hjá senjoru Alba, allt ákaflega föngulegir ungir menn utan einn sem er bústinn bangsi með blíðleg augu og feimið bros sem senjorunni finnst auðvitað langsætastur – en ekki henni Írenu. Nei takk, hún virti hann ekki viðlits en daðurgalaði viðstöðulaust á restina af flokknum án þess að taka eftir því að þeir eru einhvers staðar snemma á þrítugsaldri (hún 73 og greinilega aldrei verið sérlega lystarlaus).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það var ekki mikið andað þann daginn í húsinu hennar Írenu. Ónei. En það skipti engum togum að hundurinn hennar Rose tók undir hvert orð sem Írena galaði, vinnuflokkurinn leit ekki einu sinni upp, áleit eðlilega að Írena þessi ætti erindi við hundinn en ekki þá. Einhvern tímann seinni part dagsins kom svo hin ofboðslega smávaxna, tannlausa Rose (besta vinkona Írenu og hlaupatík) á harðahlaupum (á loðfóðruðum inniskóm) yfir til hennar til að biðja hana að hætta að daðra við helvítis hundinn. Og hjálpi mér allir heilagir, það gengu hreinlega þrumur út úr gogginum á Írenu, fullkomlega óskiljanlegur vaðall, áður en hún snerist á hæli og sagðist vera farin inn að anda.

Litla Rose sneri sér að senjoru Alba með tárin í augunum og spurði hvort það væri rétt sem Írena segði, að hún ætlaði virkilega að hringja í lögguna og láta taka af henni „me dog“. Það hafði ekki hvarflað að senjorunni að það væri bannað að gelta á lóðum þar sem karlar mega ganga um í engu og toga í spottann á sér dag út og dag inn. Hún sagði litlu Rose að hún væri nú nýflutt úr tíu hunda götu í Mosó og löngu orðin heyrnardauf á gjammið í þeim nema helst þegar þeir lenda í ástríðufullum samtölum við konur í næstu götum, auk þess sem hún kynni ekki að hringja í miðjarðarhafslöggur.

Litla Rose faðmaði senjoruna að sér og sagðist ætla að kjósa hana sem hverfisforseta í næstu kosningum. Og nú er Írena aftur mætt á sína verönd, galandi að hætti hússins. Hundurinn geltir. Vinnuflokkurinn frá Moldóvu heldur hvíldardaginn heilagan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: