- Advertisement -

Hundraðfalt yfir heilsuverndarmörkum

Skrifin eru fengin af Faceooksíðu Ólínu Þorvarðardóttur.

Ólína Þorvarðardóttir.

Var að hlusta á hádegisfréttir og það kom mér í vont skap. Þar var upplýst að starfshópur sem settur var á laggir fyrir margt löngu um það hvernig best sé að draga úr flugeldamengun um áramót, og átti að skila af sér tillögum í febrúar á þessu ári, sé enn ekki tilbúinn með tillögur sínar og muni ekki verða fyrr en á næsta ári. Sumsé! Enn ein áramótin með mengun sem fer hundraðfalt yfir heilsuverndarmörk. Síðustu ár hefur mengun farið í 1500 til 2500 míkrógrömm á rúmmetra sem er styrkur á stærðargráðu náttúruhamfara, líkt og þegar eldfjallaaska berst til Reykjavíkur samkvæmt upplýsingum Vísindavefsins. Enda ekki að furða því magn innfluttra flugelda hefur fjórfaldast á 20 árum.

Og …. íslensk stjórnsýsla sannar enn einu sinni óskilvirkni sína, þessa lamandi, lélegu frammistöðu sem æ ofan í æ birtist okkur í handónýtum starfshópum og vinnunefndum sem engu skila því hagsmunaaðilar komast endalaust upp með að tefja og vefja mál svo að almannahagsmunir eru fyrir borð bornir. Eins og núna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Skítt með lungnaheilsu barna og andnauð astmasjúklinga. Talsmaður samtaka ferðaþjónustunnar sagði jú í fréttum um jólin að það myndi fækka ferðamönnum ef dregið yrði úr flugeldanotkun, og það mætti nú bara ekki gerast hvað sem liði svifryksmengun. Já, hann sagði þetta maðurinn. Sumsé: Græðgissjónarmið ferðaþjónustunnar eiga nú að ráða lífi og heilsu almennings. Skítt með lýðheilsusjónarmiðin.

Ég sé fram á enn ein ármótin utan Reykjavíkur, enda held ég ekki út að vera hér í sprengifárviðrinu sem þá gengur yfir með þeim slysum, mengun og vanlíðan sem því mun óhjákvæmilega fylgja. Ég mun þess vegna forða mér þessi áramót með mínum maka, börnum og barnabörnum, og heimilishundinum sem líður sálarkvalir í kringum hver einustu áramót þó að ég leggi nú ekki á hann niðurgang og skjálfta á gamlárskvöldið.

We are not amused …


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: