Hjörleifur Hallgríms á Akureyri er ósáttur við Ríkisútvarpið. Og nefnir í Moggagrein nokkrar ástæður. Honum finnst óásættanlegt að Ríkisútvarpið hafi ekki sagt frá komu glæsiskipsins Vilhelm Þorsteinssonar EA 11.
Mest er Hjörleifur þó ósáttur við fréttaflutning af „Samherjamálinu“.
„Það er orðin svo grafalvarleg framkoma sem RÚV viðhefur gagnvart Samherja – og þá sérstaklega þríeykið sem að framan greinir og kemst upp með það – að yfirvöld, sem halda þessari stofnun uppi með fjáraustri, verða að fara að taka í taumana því ekki gerir hundónýtur menntamálaráðherra það sem RÚV heyrir undir. Slík framkoma á sér ekki hliðstæðu og er til skammar,“ skrifar Hjörleifur í Moggann.
Skoðum annan kafla úr greininni:
„Það er næsta víst að ef það hefði verið einhver önnur íslensk útgerð sem var að koma með slíkt glæsifley til landsins og flotta nýsmíði hefði RÚV-sjónvarp verið fljótt til og sent töku- og fréttalið á staðinn og verið með stóra útsendingu af viðburðinum og viðtöl við eigendur. En af því að það er Samherji sem á í hlut hunsaði slúðurþyrst lið hjá RÚV; Akureyringarnir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri og Helgi Seljan, algjörlega þessa stórfrétt. Í staðinn „fögnuðu“ þau með frétt frá Færeyjum þar sem þarlent útgerðarfyrirtæki er talið hafa farið að einhverju leyti fram hjá lögum og viti menn; RÚV-liðið fann út að Samherji hefði átt lítinn hlut í færeyska fyrirtækinu! Langt er nú seilst og ekkert undanskilið ef haldið er að það sé til hnjóðs Samherja.“