Því er ekki um þjónustugjald að ræða heldur ólögmæta skattheimtu.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, skrifar:
Skatt má ekki leggja á nema með lögum en svo segir í 40. gr. stjórnarskrárinnar. Öðru gegnir um þjónustugjöld. Stjórnvöldum er almennt heimilt að krefjast greiðslu fyrir veitta þjónustu. Ef stjórnvöld á annað borð innheimta gjöld langt umfram kostnaðarþörf er ekki um annað að ræða en skattheimtu í dulbúningi. Hundaeftirlitsgjald í Reykjavík er skýrt dæmi um slíkt. Reykvíkingar þurfa að greiða árlega 19.850 kr. vilji þeir eiga hund. Sú gjaldtaka er sögð nauðsynleg til að standa undir kostnaði við hundaeftirlit í borginni. Eigendur skráðra hunda greiða auk þess skráningargjald þegar hundurinn er fyrst skráður og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði frá dýralækni sem einnig þarf að greiða fyrir.
Því vekur það athygli hvernig störfum hundaeftirlitsins er lýst í nýrri skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr. Í skýrslunni segir „Meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“ Hvers vegna skyldi svo mikil áhersla vera lögð á skráningu hunda? Það gefur augaleið að það er til að auka tekjurnar. Um 2.000 hundar eru á skrá í Reykjavík en samkvæmt skýrslu stýrihópsins má gera ráð fyrir því að hundar séu á a.m.k. 9.000 heimilum í borginni. Hundaeftirlitið getur því aukið tekjur ef fleiri hundar eru skráðir.
Það fylgir því vinna að hafa eftirlit með hundum og fanga lausa hunda. Sú starfsemi er þó langt frá því að vera svo umsvifamikil að innheimta þurfi jafn hátt gjald og nú er gert. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar hefur hundaeftirlitið tekið í vörslu 19 hunda síðastliðin tvö ár, minna en einn hund á mánuði.
Samkvæmt vinnuskýrslum hundaeftirlitsmanna það sem af er ári kemur fram að hundaeftirlitsmenn hafi farið í 89 eftirlitsferðir vegna kvartana. Tveir hundaeftirlitsmenn eru í fullu starfi og samsvarar það u.þ.b. einni eftirlitsferð í viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann. Það er því auðséð að starf hundaeftirlitsmanna er ekki fullt starf fyrir eina manneskju, hvað þá fyrir tvær.
Rangt er að innheimta eins hátt gjald og raun ber vitni. Gjaldtakan dregur augljóslega úr skráningu hunda og gerir þar með eftirlitsstörf erfiðari. Þá er gjaldið nýtt í aðra hluti en þá þjónustu sem það á að standa undir. Í skýrslu stýrihópsins er tekið fram að gjöldin „séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“ Því er ekki um þjónustugjald að ræða heldur ólögmæta skattheimtu.
Meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu mína um að leggja niður skráningar- og hundaeftirlitsgjaldið. Því mun borgin áfram innheimta skatt úr hendi þeirra hundaeigenda sem eru heiðarlegir og skrá sína hunda. Mikilvægt er að það verði skoðað fyrir alvöru hvort hundaeftirlitsgjaldið sé lögmætt.