Fréttir

Hún sagði okkur að á Íslandi þekktu allir alla og svona

By Ritstjórn

November 22, 2019

Oddný Harðardóttir skrifaði:

Var að horfa núna fyrst á Kastljós frá því á mánudaginn. Þar sat forsætisráðherra fyrir svörum. Hún sagði okkur að á Íslandi þekktu allir alla og svona. Því væri svo flókið að ræða samband sjávarútvegsráðherra og fyrrum stjórnarformanns Samherja við forstjóra Samherja. Þeir væru æskuvinir – til að mynda. Hver og einn ráðherra þyrfti að meta hæfi sitt.

Ég velti fyrir mér hvers vegna forsætisráðherranum fannst það góð hugmynd við stofnun ríkisstjórnarinnar að fyrrum stjórnarformaður eins stærsta útgerðarfyrirtækis á landinu yrði sjávarútvegsráðherra. Leit það ekki alltaf illa út?

Ætli forsætisráðherrann hafi ekki leitt hugann að hæfi sjávarútvegsráðherrans vegna tillögu hans um úthlutun makrílkvótans sem var hliðholl stórútgerðinni eða við samningu reiknireglu fyrir veiðigjöld sem var líka stórútgerðinni í hag?

En kannski er þetta bara allt talið eðlilegt við ríkisstjórnarborðið. Enda studdi forsætisráðherrann Sigríði Á. Andersen sem dómsmálaráðherra þar til Sigríður ákvað sjálf að stíga til hliðar eftir að erlendur dómstóll hafði tjáð sig um embættisfærslur hennar.

Formaður Sjálfstæðisflokksins studdi dómsmálaráðherrann og styður sjávarútvegsráðherrann líka, enda studdu þau bæði hann sjálfan, ráðherra skattamála, þegar í ljós kom með Panamaskjölunum að hann hafði nýtt sér skattaskjól.

Og svo er það formaður Framsóknarflokksins sem hefur nú áður bent okkur á að það sér erfitt að eiga peninga á Íslandi.