Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Gervistéttarfélagið Van „Virðing“ sem atvinnurekendur á veitingamarkaði stofnuðu er komið á Akureyri sem er eitt af félagssvæðum Starfsgreinasambands Íslands. En þetta er svívirðileg aðför að kjörum verkafólks sem starfa á veitingamarkaði!
Ég sem formaður Starfsgreinasambands Íslands tek svo sannarlega undir áhyggjur og gagnrýni Eflingar stéttarfélags á „nýtt stéttarfélag“ sem ber nafnið „Virðing.“
Það er rétt að vekja athygli á því að Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði og aðrir stjórnarmenn óskuðu eftir fundi með Starfsgreinasambandi Íslands fyrir nokkrum misserum síðan.
Á þeim fundi kom skýrt fram ósk um að SVEIT vildu fá að gera kjarasamning við SGS en sú ósk gekk að stórum hluta út á að skerða réttindi starfsmanna sem starfa í veitingageiranum. Að sjálfsögðu hafnaði SGS þessum hugmyndum og vísaði SVEIT á að vera í samtali við Samtök atvinnulífsins sem væri sá samningsaðili sem SGS gerði kjarasamninga við í þessum geira.
Nú hefur komið í ljós að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði dóu ekki „ráðalaus“ þrátt fyrir að hvorki SGS né Efling væru tilbúin til að ganga frá nýjum kjarasamningi sem átti að gjaldafella laun og önnur réttindi starfsfólks á veitingastöðum. Jú þessir aðilar virðast hafa ákveðið að stofna sjálfir gervistéttarfélag til að gjaldfella áratuga kjara-og réttindabaráttu launafólks.
Hugsið ykkur hvert við erum komin þegar atvinnurekendur sjálfir stofna „gervistéttarfélag“ til þess eins að taka niður kjör launafólks.
Það er klárt mál að hér er um að ræða mestu aðför að kjarabaráttu launafólks um áratugaskeið enda blasir það við að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins og samfélagið allt getur alls ekki horft aðgerðalaust á þessa valdbeitingu Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.
Hér er verið að níðast á lágtekjufólki á íslenskum vinnumarkaði með svívirðilegum hætti.
Við athugun aðildarfélaga SGS hefur komið í ljós að þetta gervistéttarfélag hefur tengt sig inn á félagssvæði aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og nægir að nefna í því samhengi að Eining iðja á Akureyri hefur haft spurnir af því að þetta nýja gervistéttarfélag atvinnurekanda sé komið af fullum þunga til Akureyrar.
Þessu mun Starfsgreinasamband Íslands mæta af fullum þunga og afli enda svívirðilegt að atvinnurekendur skuli voga sér að beita launafólk svona ofbeldi með því að gjaldfella kjör og réttindi með gervistéttarfélagi.
Við skorum á félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands að hafa tafarlaust samband við sitt stéttarfélag ef þeir verða varir við að atvinnurekendur séu að reyna að þvinga starfsfólk sitt yfir í þetta nýja gervistéttarfélag til þess eins að svína á réttindum þeirra sem starfa í veitingageiranum.
Við munum skoða lagalegu hlið þessa máls enda teljum við að þessi nýi „kjarasamningur“ „Virðingar“ sé ósamræmanlegur 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980 og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 að því marki að kveðið er á um lakari kjör en samkvæmt kjarasamningi SGS og SA.
Jafnframt eru ákvæði í kjarasamningnum sem kunna að vera gagnstæð eða fullnægja ekki skilyrðum laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979, laga um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971, laga um orlof nr. 30/1987, laga um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018, jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, tilskipunar 91/533/EBE um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi og samnings ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008 um breytt fyrirkomulag uppsagna á almennum vinnumarkaði.
Það er mikilvægt að benda á eins og fram kom hjá Eflingu að manneskja sem vinnur vaktavinnu á veitingastað samkvæmt samningi SVEIT við Virðingu fær ríflega 10% lægri laun en sú sem fær greitt eftir löglegum kjarasamningi SGS og Eflingar við SA.
Hérna eru helstu réttindaskerðingar sem þessi nýi kjarasamningur „stéttarfélagsins“ Van- Virðingar hefur í för með sér:
• Dagvinnutímabil lengt gríðarlega eða frá 08:00 til 20:00 og dagvinna er einnig til 16:00 á laugardögum.
- • Vaktaálög lækkuð.
- • Kjör ungmenna á aldrinum 18-21 árs eru skert, en heimilt er að greiða þeim 95% af byrjunarlaunum, án takmörkunar á reynslutíma.
- • Orlofsréttindi eru skert en ekki er gert ráð fyrir ávinnslu orlofs umfram lögbundinn lágmarksrétt.
- • Uppsagnarfrestur er styttri.
- • Veikindaréttur er skertur.
- • Réttur vegna veikinda barna er skertur.
- • Hátíðardögum fækkað.
- • Réttur barnshafandi kvenna er skertur.
- • Ýmis félagsleg réttindi eru skert sem og réttindi og möguleikar trúnaðarmanna á að gegna starfi sínu.
- • Enginn sjúkrasjóður.
Á þessari upptalningu sést sú aðför sem verið er að ástunda gagnvart innlendu sem erlendu verkafólki sem starfar í þjónustu á veitingamarkaði.
Ég sem formaður í Starfsgreinasambandi Íslands vil koma þeim skýru tilmælum til þeirra atvinnurekenda sem stofnuðu þetta gervistéttarfélag að hverfa frá þessari vanvirðingu við réttindabaráttu launafólks tafarlaust og leggja þetta ólöglega gervistéttarfélag niður og fara eftir þeim lágmarks kjarasamningum sem SGS og Efling hafa gert við Samtök atvinnulífsins fyrir umrædd störf.
Ef ekki þá er ljóst að Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eru að kalla yfir sig stríð við alla verkalýðshreyfinguna enda þau lágmarkskjör og réttindi sem um hefur verið samið á milli aðila vinnumarkaðarins hornsteinn sáttar á íslenskum vinnumarkaði.
Hið rétta nafn á þessu gervistéttarfélagi er alls ekki Virðing heldur Vanvirðing.