- Advertisement -

Hugmyndirnar hafa kostað 200 milljónir

Ekki stendur til að ráðast í framkvæmdir í húsinu í á næstu mánuðum.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins.

„Kostnaður vegna fyrirhugaðrar umbreytingar Grófarhúss er kominn í tæplega tvö hundruð milljónir króna. Er það gífurlegur kostnaður þegar haft er í huga að verkefnið er enn á hugmyndastigi,“ segir í bókun borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.

„Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fluttu í Grófarhús, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu. Þótt þörf sé á ákveðnu viðhaldi er ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar stefnir að. Í október sl. var heildarkostnaður við umbreytingu hússins áætlaður 5.324 milljónir króna. Athygli vekur að kostnaður við hönnun og verkefnastjórn er áætlaður 1.165 milljónir króna eða 22% af heildarkostnaði við verkefnið,“ segir borgarstjórnarflokkurinn.

„Reynslan sýnir að slík endurbyggingarverkefni fara jafnan langt fram úr áætlunum. Á þessu stigi hönnunar eru vikmörk mikil vegna óvissuþátta, sem gera má ráð fyrir að gætu numið +50% samkvæmt samantekt um málið frá 19. apríl 2023. Ljóst er að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verður gífurlegur. Furðu sætir að slík framkvæmd sé sett í forgang vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og uppsafnaðrar viðhaldsskuldar sem nemur tugum milljarða króna. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði borgarinnar liggur víða undir skemmdum vegna skorts á viðhaldi og mygluskemmdir há starfi í mörgum skólum.“            

Fulltrúar meirihlutans vörðust:

„Ekki er rétt að framkvæmdir vegna Grófarhúss hafi verið settar „í forgang“. Að undanförnu hefur staðið yfir hugmyndavinna og ákveðin vinna við hönnun og forhönnun. Ekki stendur til að ráðast í framkvæmdir í húsinu í á næstu mánuðum en  skynsamlegt er að búa í haginn til að hægt sé að ganga til verka þegar fjárfestingarsvigrúm er orðið meira.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: