Hugleiðing um Verkó
Þetta skrifaði Össur Skarphéðinsson:
Hvað sem líður þreytu venjulegs fólks á Verkó, sem sum árin virðist vera að koðna niður í blóðlaust skrifræði og önnur upptekin af blóðugum og ógeðfelldum innanflokksátökum, þá er það Verkó sem á frumburðarréttinn að öllum helstu ávinningum í réttindabaráttu launafólks. Á seinni árum hefur Evrópusambandið einnig komið sterkt inn við að auka réttindi launamanna og neytenda. (Jafnvel Ögmundur skilur það). Þessi ólíku öfl standa vörð um réttindi almennings og draga vagninn áfram. Þó mér finnist fjöldauppsagnir Sólveigar Önnu stappa nærri glæp, og mannvígin og sundurlyndið innan Verkó þyngra en tárum taki, þá er Verkó samt sem áður helsta haldreipi launafólks – og mikilvægasta stoð þess þegar í nauðir rekur. Það var Verkó – en ekki ríkisstjórn eða Halldór hárfagri og atvinnurekendur – sem með frekju, kjaftbrúki og hvítum hnúum skilaði launafólki mesta kaupmætti sögunnar með ótrúlega góðum samningum rétt fyrir Covid. Þeir samningar björguðu velferð íslenskrar alþýðu – án þess að tuð hins hárfagra vonarpenings kapítalelítu Sjálfstæðisflokksins um kollsteypu atvinnulífsins gengi eftir. Þvert á móti er atvinnulífið í hörkustuði og vel aflögufært um enn betri kjör. – Þessvegna er ég og verð verkalýðssinni. Þessvegna eiga allir sem vettlingum valda að styðja Verkó. –
Til hamingju með 1. maí!