Hugleiðing um heiðarleika – Sérstaklega ætluð kjósendum Sjálfstæðisflokksins
Ég ber ekki kala til þeirra því þeir gera sér ekki grein fyrir bölinu sem þeir leggja á mig.
Stefán Ragnar Þorvarðarson skrifar:
Ég sit hér í kvöld á svölunum í stutterma bol og skoða fallegan kvöldhimininn. Máninn er í miklum vexti og allar stjörnurnar eru á sínum stað. Þarna uppi ríkir mikill stöðugleiki! Ég sakna þess að geta ekki stundað þetta heima á Íslandi, þó ég þyrfti að vera kappklæddur vegna kuldans og vetrarveðra. En þar (heima á Íslandi) er lítill stöðugleiki og ekki útlit, samkvæmt því sem ég hef heyrt, fyrir breytingum til batnaðar.
En víkjum nú að því sem mér liggur í raun og veru á hjarta! Mér verður stundum hugsað til kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem eru í raun orsök veru minnar fjarri þeim sem mér þykir vænt um og landinu sem ég ann. Ég ber ekki kala til þeirra því þeir gera sér ekki grein fyrir bölinu sem þeir leggja á mig og marga aðra með því að halda Sjálfstæðisflokknum inni á þingi, í áhrifastöðum. Skyldi einhver af þessum kjósendum þessa „sjálfstæða“ flokks eiga enn og muna bréfsnepil sem formaðurinn þeirra ritaði fyrir síðustu kosningar. Einstaklega hugljúft og fallega orðað loforð um að ef ÞÚ kemur flokknum til valda í kosningum þá munu ákveðin mál verða sett í öndvegi! og stílað á ÞIG, „Ágæta kjósanda“ (Sjálfstæðisflokksins) sem ert ástæðan fyrir þessum hugleiðingum mínum. Lastu þetta bréf og líkaði þér það sem í því stóð? Fannst þér að þarna væri tekið á miklu réttlætismáli eins og BB orðar það í bréfinu? Ef það er skoðun þín, hvað finnst þér þá um efndir þessara loforða ÞÍNS ágæta formanns?
Ekki ber mikið á efndum þessara loforða frekar en efndum annarra loforða sem þessi flokkur leggur á borð fyrir okkur almenning í þessu landi. Kjarni málsins er, að það ert ÞÚ „Ágæti kjósandi“ Sjálfstæðisflokksins sem berð ábyrgð á þessu! ÞÚ kaust þetta yfir okkur hina og jafnvel kannski vegna þessa útsmognu lyga sem bornar voru á borð fyrir ÞIG í síðustu kosningum! Ég dreg stórlega í efa að þeir sem eru komnir á efri ár og kusu þessa ógæfu yfir okkur, séu stoltir af flokknum eða þeim sem undirritaði loforðin sem voru svo öll svikin. Ég hef það fyrir satt að margir eldri borgarar og ellilífeyrisþegar hafi kosið þennan umrædda flokk. Það er einfaldlega þannig að þegar árin færast yfir þá mildast maður og treystir flestu sem hljómar vel og lofar góðu. En látum ekki henda að endurtaka mistökin þegar kemur að því að kjósa á ný! Geymum lygarnar en gleymum þeim ekki. g efast ekki um að ný bréf loforða komi til með að flæða til okkar og klofnar tungur tísti í eyru okkar þegar nær dregur kosningum. Að þetta lið geri sér jafnvel ferðir til að ná nú örugglega til okkar og með hvað? Ný loforð, endurteknar lygar?
Við eigum til gamlan og góðann málshátt sem segir allt sem þarf að segja um svona gjörðir!
Til þess eru vítin að varast þau!