Alþingi
Oddný Harðardóttir talaði um eignarhaldið á HS Veitum og HS Orku á Alþingi í dag. Gefum henni orðið:
„Ég get tekið undir það að það væri færi betur á því að þetta væri allt saman í lagi í opinberri eigu en auðvitað er þarna saga sem ríkið fór að rúlla af stað á sínum tíma með Hitaveitu Suðurnesja og sinn eignarhlut og svona erum við stödd núna. Þá er spurning hvort hægt sé að vinda ofan af því, hvort við séum bara stödd á þessum stað. Nú hefur verið ráðist í alls konar framkvæmdir. Ég las í fjölmiðlum að fyrirtækin hafi fengið styrk til að bora holu á lághitasvæði fyrir hitaveitu sem gæti verið varanleg lausn og gæti jafnvel skilað arði og breytt einhvern veginn hlutföllum á rafmagns- og heitavatnsframleiðslu í Svartsengi og haft áhrif á innkomu fyrirtækisins til framtíðar. Var þarna gert ráð fyrir hlut ríkisins eða er ríkið bara að borga? Erum við að gera það sem við erum svo góð í, að ríkisvæða tap en einkavæða gróða?“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svaraði:
„Þessi umræða kom reyndar upp þegar ég mælti fyrir frumvarpinu um heimild til að reisa varnargarða sem var einmitt gagnrýnt vegna þess að þar ættu undir bæði einkarekin orkufyrirtæki og síðan er þar auðvitað annað fyrirtæki innan varnargarðanna. En eins og kom fram í máli mínu þá þá hljóta stjórnvöld alltaf að hafa bara hagsmuni íbúa á svæðinu sem sitt leiðarljós í því sem gert er. Það er hins vegar alveg ljóst líka, eins og ég sagði þá og get ítrekað hér, að mér finnast mikilvægir innviðir sem þessir eiga heima í almannaeigu og mér finnst þessi staða núna sýna okkur hversu mikilvægt það er því að við eigum auðvitað okkar orkufyrirtæki sem skilar okkur miklum arði en hægt er að leggja miklar kröfur á. Háttvirtur þingmaður nefndi sérstaklega vatnsöflun, en HS Veitur hafa með stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukið vatnsöflun í gömlu vatnsbóli í Árnarétt í Garði sem mun geta þjónustað íbúa svæðisins ef á þarf að halda, en það vatnsból getur nú skilað allt að 100 lítrum á sekúndu. Til samanburðar nota Reykjanesbær og Suðurnesin að jafnaði bara um 170 lítra á sekúndu. Þetta var gert vissulega með stuðningi jöfnunarsjóðsins.“