- Advertisement -

Hröktum fólk að heiman að óþörfu

- leiðari dagsins

Við hrunið urðu víða kaflaskil. Þau verstu voru kannski þau að fjöldi fólks missti heimili sín. Gat ekki lengur borgað af skuldunum. Neyddist til að fara að heiman. Lánastofnanir, og síðar fasteignafélög, hafa nú eignast fjölda þessara íbúða. Með ótrúlega vondum afleiðingum. Sumt af þessu fólki leigir nú af þeim sem fengu íbúðirnar. Og á þannig verði að fólkið situr fast. Kemst ekkert. Er fast í gildru okurleigunnar. En varð þetta að fara svona?

Svarið er nei. Í umræðum í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni var þetta margrætt haustið 2008 og í ársbyrjun 2009. Meðal tíðra gesta í þættinum var Jón Daníelsson hagfræðingur við London School of Economics.

Í þættinum sagði hann eitt sinn eitthvað á þá leið að aldrei mætti koma til þess að fólk yrði hrakið að heiman. Það mætti ekki gerast. En hvað ef fólk gæti ekki borgað?

Hann var með eindalda lausn á því. Þann hluta afborgana sem fólk réði ekki við myndi bankinn eða Íbúðalánasjóður borga og eignast þar með hlut í íbúð viðkomandi. Þó með þeim fyrirvara, að sá sem var í vandræðunum, fengi forkaupsrétt að íbúðinni þegar um hægðist og greiðslugetan ykist. Gæti þá keypt alla íbúðina til baka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef þessi leið hefði verið farin, já hefði verið hlustað, þá hefðu fjölskyldur ekki verið rifnar upp með rótum, börn ekki þurft að skipta um leikskóla eða grunnskóla.

Og það sem mestu skiptir. Fólk byggi enn á því heimili sem það hafði búið sér. Þessi einfalda mynd var í boði strax haustið 2008.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: