Sjónvarpsstöðin Hringbraut er lítt spennt fyrir Oddnýju Harðardóttur, þingflokki Samfylkingarinnar, og telur þingsetu hennar þrengja mjög kosti Samfylkingarinnar.
Nafnlaust skrifar Hringbraut: „Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur tilkynnt að hún sækist áfram eftir sæti á Alþingi. Þetta kemur nokkuð á óvart því hún verður 64 ára á næsta ári og frekar var gert ráð fyrir að hún gæfi ekki kost á sér í komandi kosningum. Oddný er formaður þingflokks Samfylkingar. Hún hefur átt sæti á Alþingi frá árinu 2009 og gegndi ráðherraembætti í rúmt ár undir lok vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.“
Og áfram er haldið: „Oddný er lengst til vinstri af þingmönnum Samfylkingar. Hún virðist vilja leysa flest mál með því að hækka skatta eða leggja á nýja skatta. Að margra mati starfar hún í röngum flokki og ætti frekar heima í Vinstri grænum eða jafnvel í Sósíalistaflokki Gunnars Smára.
Hún mun að óbreyttu ná kjöri í Suðurkjördæmi og verða áhrifamikil innan þingflokks Samfylkingar eftir kosningar. Það minnkar möguleika Samfylkingarinnar á að komast í ríkisstjórn, nema þá með Vinstri grænum, Pírötum eða Sósíalistaflokki Gunnars Smára, komi hann mönnum á þing. Fátt bendir til þess að umræddir flokkar fái nægilegt kjörfylgi til að mynda ríkisstjórn. Verði jafnvel fjarri því.
Orðrómur var um það að Finnur Beck, lögfræðingur og fyrrverandi sjónvarpsmaður og formaður Stúdentaráðs, tæki fyrsta sæti á lista Samfylkingar í Suðurkjördæmi ef Oddný léti gott heita.
Hver veit nema hann sækist eftir að leiða listann og keppi við Oddnýju um það í prófkjöri.“