Stjórnmál
Hvalveiðar eða ekki hvalveiðar kunna að ráða miklu um framtíð veikrar ríkisstjórnar Bjarna Ben.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er í einskonar störukeppni við Sjálfstæðisflokkinn. Teitur Björn Einarsson, þingmaður í NV-kjördæmi bregst illa við framgangi Bjarkeyjar matvælaráðherra.
Mogginn fór í málið og talaði við Teit Björn. Þar segir hann margt stórt sem um leið mælir styrk hans innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
„Það er ekki aðeins að ráðuneytið hafi haft þetta mál til skoðunar svo mánuðum skiptir, heldur hafa hvalveiðar sem eru heimilaðar lögum samkvæmt verið í alls konar skoðun hjá ráðuneytinu nú í meira en ár. Það er augljóslega ekki verið að virða málshraðareglu stjórnsýsluréttar í ljósi þess hvers eðlis málið er,“ sagði Teitur Björn við Moggann.
„Um tvær vikur eru til hefðbundins upphafs vertíðarinnar, en sökum tafa á afgreiðslu leyfisins virðist ljóst að ekki verður af veiðum í sumar,“ segir í Moggafréttinni.
„Málið er háð ákveðnum tímaþáttum, veiðar eiga sér stað á sumrin og það er ekki verið að taka tillit til þess og þar með er ekki verið að beita málshraðareglunni með réttum hætti. Þá er ekki verið að taka neitt tillit til þeirra gríðarlegu hagsmuna fólks sem á hér mikið undir. Allt bendir til þess að vertíðin sé að fara forgörðum út af athafnaleysi ráðherrans,“ sagði Teitur Björn.
„Það er mjög alvarlegt mál þegar ráðherra brýtur lög og enn alvarlegra þegar það er gert vísvitandi í pólitískum tilgangi. Það hefur afleiðingar,“ segir hann.
Hvaða afleiðingar?
„Ég get ekki sagt til um það núna, en ef það er svo að hvalveiðar verða ekki í sumar vegna ólögmæts athafnaleysis ráðherra, þá er ráðherra enn og aftur að baka ríkinu skaðabótaskyldu,“ segir Teitur Björn.
Nú hefur Hvalur hf. engin svör fengið frá ríkislögmanni um ósk um viðræður um skaðabætur vegna hvalveiðibanns síðasta sumars. Hver eru þín viðbrögð við því?
„Mér finnst það óskiljanleg stjórnsýsla á allan hátt,“ segir hann.
Nú verður fjöldi fólks af háum tekjum vegna þessa ráðslags matvælaráðherra og flestir eru búsettir í þínu kjördæmi. Hvað vilt þú segja við það fólk?
„Hvalveiðar eru lögmæt og sjálfbær atvinnugrein sem byggir á vísindalegum grunni. Lögin eru alveg skýr og ég mun ekki sætta mig við stjórnsýslu sem fer á svig við þau lög. Það eru gríðarlegir hagsmunir undir og ekki hægt að una við það að verið sé að viðhafa ómálefnalega stjórnsýslu og að tekið sé fyrir grundvallarréttindi fólks sem varin eru í stjórnarskránni með ólögmætu athafnaleysi. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Teitur Björn, við Moggann.