- Advertisement -

Hressandi ef næstu þingkosningar snúast um eitthvað annað en hvaða flokkur verður í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum

Jóhann Páll Jóhannsson skrifaði:

Hanna Katrín, þingflokksformaður Viðreisnar, heldur því fram í viðtali á RÚV að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi „blekkt“ samstarfsflokkana í ríkisstjórn þegar Alþingi afgreiddi tillögu hennar um skipun landsréttardómara – en svo segist hún „ekki telja að ríkisstjórnarsamstarfið hafi verið óheilbrigt“. Hversu heilbrigt er stjórnarsamstarf þar sem ráðherra eins flokks blekkir þingmenn annarra flokka? Í sömu frétt er haft eftir Hönnu Katrínu að dómsmálaráðherra hafi „fullvissað þingið um að breytingarnar væru í samræmi við ráðleggingar embættismanna og að þær snerust fyrst og fremst um jafnréttissjónarmið“. Hins vegar var hvergi minnst á þessi jafnréttissjónarmið í upphaflegum rökstuðningi ráðherra fyrir því að víkja frá mati hæfnisnefndar á umsækjendum, og aðeins rétt tæpt á þeim í minnisblaði frá ráðuneytinu sem kom fram á seinni stigum. Málsvörnin um að ráðherra hafi blekkt þingmenn og að það hefði breytt öllu ef greint hefði verið frá viðvörunum ráðuneytisstarfsmanna er veik, enda lá fyrir skýrt dómafordæmi sem gaf til kynna að með verklagi sínu væri ráðherra að brjóta rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Á þetta var margbent og þingmenn sem trúðu Sigríði Andersen í blindni brugðust hlutverki sínu. Kannski er Bjarni Halldór Janusson, sem var nýskriðinn upp úr menntaskóla þegar hann tók sæti á þingi og dróst inn í þessa atburðarás, sá eini sem hefur viðurkennt slík mistök vafningalaust og í auðmýkt.

Fyrir tíu árum gaf Samfylkingin út skýrslu þar sem stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og þáttur flokksins í bankahruninu var gerður upp. Þar segir meðal annars: „Niðurstaða umbótanefndar er sú að Samfylkingin hafi frá upphafi verið veikari aðilinn í samstarfi hennar og Sjálfstæðisflokksins og í raun sætt sig við þá stöðu. Þetta varð til þess að stefnumál flokksins voru ekki sett fram af nægilegri festu, starfshættir og forgangsröðun samstarfsflokksins ríktu áfram með sama hætti og fyrr og Samfylkingin sætti sig við að hún gæti aðeins búist við því að með lagni mætti þoka Sjálfstæðisflokknum inn á „rétta braut“ þegar fram í sækti.“ Hljómar kunnuglega… e.t.v. eitthvað sem fleiri flokkar gætu tekið til sín? Mikið væri a.m.k. hressandi ef næstu þingkosningar snerust um eitthvað annað og meira heldur en hvaða flokkur fær næst að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: