- Advertisement -

„…hrekkjusvínin komu og skemmdu…“

Alþingi Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir er meðal þeirra þingmanna sem hafa talað í umræðunni um fjáraukalög fyrir yfirstandandi ári.

„Þegar ég var alast upp þá kom það stundum fyrir að hrekkjusvínin í hverfinu gengu um garða og brutu og mölvuðu það sem önnur börn höfðu byggt upp, hvort sem það voru kofahró, vegir sem lagðir höfðu verið í sandinn eða lítil leiði yfir dáin gæludýr eða fugla. Þetta var eyðilegt, eitthvað sem litlar hendur glöddu sig við að gera og hrekkjusvínin komu og skemmdu, af því bara, af því að það var hægt. Þannig gengur lífið hjá óþroskuðum börnum, en það er sorglegt svo ekki sé meira sagt að verða vitni að sömu hegðun hjá þeim aðilum sem hafa ráð þjóðarinnar í hendi sér. Hér á ég við þá áráttu núverandi ríkisstjórnar að afnema allt sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði, ekki vegna þess að rök eða ástæður séu svo ríkar heldur bara af því að það voru verk fyrri ríkisstjórnar, af því bara. Eitt átakanlegasta dæmið um þetta er sú ákvörðun að nema úr gildi fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, áætlun sem gerði ráð fyrir öflugri uppbyggingu samfélagslegra innviða sem lið í efnahagslegri og samfélagslegri endurreisn eftir hrun, vegagerð, jarðgangagerð, efling rannsóknarstofnana og fleira sem upp mætti telja.“

Ólína talaði áfram um fjárfestingaráætlunina: „Markmið fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar var með öðrum orðum að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Hún var liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og henni var ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt. Hún var sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið, og að með nýjum lögum sem þá höfðu verið sett um veiðigjöld fengi þjóðin aukna hlutdeild í arði sjávarauðlinda. Þarna var gerð tillaga um verkefni sem áttu að leiða af sér fjárfestingu fyrir um 88 milljarða kr. og þar af var gert ráð fyrir að 39 milljarðar yrðu fjármagnaðir úr þessari fjárfestingaráætlun. 17 milljarðar áttu að koma af sérstöku veiðileyfagjaldi og leigu aflahlutdeilda og 22 milljarðar áttu að koma af arði og sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum. Þetta átti að renna í samgönguáætlun og jarðgangaáætlun, til eflingar Rannsóknarsjóðs og Tækniþróunarsjóðs og til atvinnuþróunar og sóknaráætlana á vegum landshlutasamtakanna.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: