Bragi Halldórsson skrifar:
Fyrsti apríl er haldin víða um heim sem hrekkjadagur. Talið er líklegast að megi rekja uppruna þessa siðar til miðalda í Evrópu en þá var þar haldið upp á vorjafndægur og ´áramót þann 25. mars.
Sú gamla hefð að stórhátíðir ættu sér áttund, það er hátíðisdag átta dögum síðar og oft með tilheyrandi átta daga hátíðarhöldum má rekja allt aftur til Rómverja og ennþá má finna slíka áttundardaga í kristni. Sem dæmi eru núverandi áramót okkar átta dögum eftir jóladag og Geisladagur átta dögum eftir þrettándann.
Það var Karlamagnús sem innleiddi þennan sið á 8. öld en þegar Gregoríus páfi 13. færði áramótin frá 25. mars til 1. janúar á 16. öld stóð 1. apríl eftir sem hrekkjadagur þótt ekki væri hann áttund lengur, því almenningur vildi halda í þau ærsl sem þessu degi hafði fylgt.
Það passaði líka vel þar sem við tilflutning nýárshátíðar kirkjunnar sem áttund af 25. desember var Fyrsti apríl sviptur allri trúarlegri helgi og því hægt að gera sér ærlega glaðan dag að veraldlegum sið án þess að styggja kirkjunnar herra.