- Advertisement -

Hrekja fullyrðingar Sigmundar Davíðs

Þriðji orkupakkinn eitt af stóru málunum í valdatíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra.

Dóra Sif Tynes:
„Rétt skal vera rétt.“

„Í viðtali í kvöldfréttum fullyrti Sigmundur Davíð að þriðji orkupakkinn hefði ekki komið til umræðu fyrr en borin var upp ákvörðun til samþykktar í sameiginlegu EES nefndinni vorið 2017,“ skrifar Dóra Sif Tynes, og gott betur:

„Nokkrar staðreyndir: Þriðji orkupakkinn var til umfjöllunar og meðferðar á vettvangi EFTA ríkjanna í vinnuhóp um orkumál og nefndum á árunum 2009 til 2015. Þar hefðu íslensk stjórnvöld getað gert athugasemdir. Sérstaklega hefði nú verið heppilegt að gera þessar athugasemdir áður en EFTA ríkin komust að samkomulagi um sína afstöðu til málsins. EFTA ríkin og ESB ræddu líka málið á þessum tíma allt til ársins 2016 þegar samningsaðilar komust að samkomulagi um upptöku gerðanna. Íslensk stjórnvöld stóðu að því samkomulagi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í tíð Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra var þriðji orkupakkinn eitt af stóru málunum sem rædd voru á samráðsvettangi EFTA ríkja og ESB, t.d. í EES ráðinu.

Rétt skal vera rétt.“

Kolbeinsþáttur Óttarssonar Proppe

Kolbeinn Óttarsson Proppe gerir jafnvel enn betur:

Kolbeinn Óttarsson Proppe:
„…tja þá var hann ekki góður forsætisráðherra.“

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór mikinn áðan í fréttum RÚV. Eins og oft áður ber hann enga ábyrgð á neinu og aðrir misskilja eða átta sig ekki á. Hann sagðist ekki hafa gert neinar athugasemdir við þriðja orkupakkann þegar hann var forsætisráðherra, enda hundruð EES-mála í gangi og því ekki hægt að ætlast til þess að hann hefði verið inni í þeim öllum. Vissulega rétt, en maður hefði kannski haldið að hann setti sig inn í mál sem hann telur jafn alvarlegt og þetta. Hann klykkti svo út með að segja að þetta hefði ekki komið fyrir sameiginlegu EES-nefndina fyrr en 2017, sem sagt eftir að hann var forsætisráðherra.

Stundum er ágætt að fara yfir staðreyndir. Þriðji orkupakkinn var samþykktur af ESB árið 2009. Þá strax var ljóst að á einhverjum tímapunkti þyrftu Íslendingar að taka afstöðu til hans. Þeir íslensku þingmenn sem sinntu Evrópustarfi á þessum árum hefðu því vel getað aflað sér nokkurra upplýsinga um þessi mál. Sigmundur Davíð sat í Íslandsdeild EFTA 2009-2011 og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og EES 2011-2013.

19. nóvember 2014 samþykkti EFTA-ráðið ályktun um mikilvægi þess að flýta innleiðingu þriðja orkupakkans í EES. Fulltrúar Íslands sátu þann fund og því ekki óeðlilegt að álykta að þriðji orkupakkinn nyti stuðnings íslenskra stjórnvalda. Sigmundur Davíð var forsætisráðherra þá og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Sigmundur Davíð virðist vera mát eftir fullyrðingarnar í fréttum Ríkissjónvarpsins.

Í kjölfarið tók við umfangsmikil vinna, þar sem Íslendingar fengu undanþágu frá hinu og þessu, eins og gengur og gerist með Evróputilskipanir. Viðræðurnar tóku mörg ár. Ísland tók fullan þátt í þeim.

Hafi Sigmundur Davíð sem forsætisráðherra ekki vitað af þeim og því ekki haft fyrir því að koma sínum athugasemdum og áherslum inn í viðræðurnar um þann mikla háska sem íslenskri þjóð stafaði af þriðja orkupakkanum, tja þá var hann ekki góður forsætisráðherra. Ef Sigmundur Davíð vissi ekki af viðræðunum og því hvaða áhrif þær og þriðji orkupakkinn myndu hafa á mögulegan sæstreng þegar hann stofnaði starfshóp með David Cameron (UK – Iceland Energy Task Force) árið 2015 til að kanna kosti slíks sæstrengs, tja þá var hann ekki góður forsætisráðherra.“

Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var vissulega tekin árið 2017, eftir forsætisráðherratíð Sigmundar Davíðs, eins og hann sagði í fréttunum. Sú ákvörðun var hins vegar tekin eftir margra ára ferli sem að miklu leyti fór fram þegar Sigmundur Davíð var forsætisráðherra.

Eiríksþáttur Rögnvaldssonar

Eiríkur Rögnvaldsson:
„Þeir sem hafa góðan málstað þurfa ekki að sniðganga sannleikann.“

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor skrifaði „…sér að Sigmundur Davíð fullyrðir að þingflokkur Miðflokksins hafi verið „all­ur í húsi“ á þeim tíma sem fundur utanríkismálanefndar var haldinn í gær. Þá hefur það greinilega verið tvífari fulltrúa flokksins í nefndinni, Gunnars Braga Sveinssonar, sem kom inn á skoðunarstöð Frumherja úti á Granda þegar ég var staddur þar á þriðja tímanum í gær – þegar fundurinn stóð sem hæst.

Þeir sem hafa góðan málstað þurfa ekki að sniðganga sannleikann.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: