- Advertisement -

Hræsni og blekking borgarstjórnar

„Pólitískar vinsældaraðgerðir meirihlutans um að lækka leikskólagjöld en hækka síðan fæðisgjöld eru einfaldlega hræsni og blekkingarleikur gagnvart foreldrum í borginni,“ segir í bókun Framsóknar og flugvallavina í borgarráði.

Tilefnið er ný tillaga, frá Framsókn og fluvallavinum, um að hækkun fæðisgjalds, í grunnskólum gangi til baka.

„Framsókn og flugvallarvinir telja einsýnt að meirihlutinn í borgarstjórn sé ekki tilbúinn að létta byrðar fjölskyldufólks sem á börn í leik- og grunnskóla með því að draga til baka hækkun sína á fæðisgjöldum frá september 2016. Pólitískar vinsældaraðgerðir meirihlutans um að lækka leikskólagjöld en hækka síðan fæðisgjöld eru einfaldlega hræsni og blekkingarleikur gagnvart foreldrum í borginni.“

Fulltrúar meirihlutans svöruðu að bragði, með eftirfarandi bókun:

„Hækkun á fæðisgjöldum var hluti af aðgerðaáætlun í skólamálum haustið 2016 þegar 678 milljónir voru settar inn í skólakerfið sem meðal annars runnu til bættrar sérkennslu, langtímaveikinda starfsfólks og skólaaksturs. Fæðisgjöld í leik- og grunnskólum voru hluti af þeirri aðgerðaáætlun. Hækkuðu þau um 100 krónur á dag og renna tekjurnar nú beint til mötuneytanna sem ráðstafa peningunum eins og best verður á kosið í næringarríkan mat fyrir börn og starfsfólk.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: