Sigurjón Magnús Egilsson:
Stundum virðist sem Katrín ætli að teygja sig í vopnabúr Bjarna og beita fyrir sig reiði eða jafnvel illsku. Svo vondur er málstaðurinn.
Stjórnarráð Íslands er í uppnámi. Þar ríkir fullkomið öngþveiti. Tugir, og jafnvel hundruð, starfsmanna hinna ýmsu ráðuneyta vita ekki enn hvar þeir starfa. Enginn virðist vita það.
Oddvitar stjórnarflokkanna sátu vikum saman við að semja sáttmála sín á milli. Þau nýttu tímann líka til að setja flest ráðuneytin í hrærivél. Fullkomlega óviss um hver niðurstaðan yrði. Hvað þá hvað hræringurinn muni kosta. Sú er staðan.
Það hefur verið pínlegt í meira lagi að fylgjast með forsætisráðherranum verja þessa þvælu á Alþingi. Stundum virðist sem Katrín ætli að teygja sig í vopnabúr Bjarna og beita fyrir sig reiði eða jafnvel illsku. Svo vondur er málstaðurinn.
Víst er að ríkisstjórnin fer illa af stað. Höktir á fyrstu metrunum. Enn leyfa óbreyttir og nýir þingmenn sér að gagnrýna þá stöðu sem flokkarnir hafa búið til. Illu heilli, segja mörg okkar.
Óvíst er hvernig tekst að endurskipuleggja nánast allt stjórnarráð Íslands
Hitt er aftur augljóst að þingmenn Íslands hafa saman skammtað stjórnmálaflokkunum sínum ofgnótt peninga. Þeir kunna varla aura sinna tal. Langmestur auður þeirra kemur endalaust á færibandi frá ráðuneyti Bjarna. Og mun gera áfram.
Þingmenn eru oftar en ekki ósammála um allt og allt. En alls ekki þegar kemur að skammta sjálfum sér og flokkunum ríkispeninga. Þetta er geggjað.