Sólveig Anna, formaður Eflingar skrifar:
„Ég bið ykkur sem fylgist með baráttu okkar í samninganefnd Eflingar fyrir góðum og sanngjörnum kjarasamningi að lesa greinina sem hér fylgir. Í henni ræði ég snautlega niðurstöðu kjarasamningagerðar stærstu landssambanda hreyfingarinnar, hvernig óðagot leiddi til þess að tækifæri til að setja þrýsting á stjórnvöld glutraðist niður með ömurlegum afleiðingum fyrir láglaunafólk höfuðborgarsvæðisins, og hvernig atburðarásin sem við urðum vitni að er enn ein staðfestingin á þeirri kreppu sem ríkir hjá íslenskri verkalýðshreyfingu. Ólýðræðisleg vinnubrögð, ógagnsæi og hræðsla við að nota máttugustu tól vinnandi fólks, fjöldasamstöðuna, einkenna þá mynd sem upp hefur dregist, enn eina ferðina.
Við í Eflingu höfnum þessum vinnubrögðum og munum halda því áfram. Við vitum að eina leiðin til að vinnandi fái að njóta afraksturs þeirra verðmæta sem vinna þeirra skapar er að við stöndum saman, sterk og full sjálfstrausts, sannfærð um réttmæti krafna okkar. Ef að við samþykkjum vinnubrögðin sem opinberast hafa og sýna okkur alvarlega veikleika verkalýðshreyfingarinnar, er alveg öruggt að atvinnurekendur og stjórnvöld munu leika nákvæmlega sama leik að ári. Ýmislegt verður dregið til í þeim tilgangi að fá launafólk til að sætta sig við kaupmáttarrýrnum og skert kjör, svo að forréttindahópar þjóðfélagsins geti sogað til sín öll verðmætin, alla uppskeru okkar vinnuafls.
Að verka og láglaunafólk taki á sig skellinn svo að hin auðugu geta auðgast enn meir; slík getur samninganefnd Eflingar ekki sætt sig við. Og mun ekki gera.“