- Advertisement -

HRÆÐILEGUR TÍMI, ÞAÐ SEM SITUR EFTIR ER VARNARLEYSIÐ OG VONLEYSIÐ

Örsögur fólks sem hefur búið við fátækt frá Hungurgöngunni:



„Það hefur oft gerst að ég eigi engan pening og engan mat. Einu sinni í enda mánaðarins var það eina sem til var á heimilinu lítil dós með niðursoðnum ávöxtum. Ég opnaði hana og hellti safanum í hálfan pela, fyllti upp með vatni og gaf barninu það.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég er með alls konar kerfi til að láta litla peninga duga út mánuðinn en ekkert af þessum kerfum getur gert ráð fyrir óvæntum útgjöldum, t.d. ef einhver slasast, veikist, fær tannpínu, þarf ný gleraugu, skó, vetrarfatnað…. listinn er endalaus. Svona hlutir setja allt úr skorðum, valda því að sá peningur sem var áætlaður í mat fyrir mánuðinn gufar upp á einu bretti.“

„Okkur er sagt að kaupmáttur lægstu launa hafi hækkað, að við höfum aldrei haft það betra. Við sem lifum af lágum tekjum könnumst ekkert við þetta. Við finnum fyrir hverri krónu sem bætist við okkar mánaðarlegu útgjöld og við finnum hvern mánuð lengjast eftir því sem hungurgangan lengist. Síðasta vika hvers mánaðar er eins og auka mánuður. Sú vika sem við þurfum að harka á matargjöfum, lánum, góðmennsku annarra, eða bara á loftinu.“

„1960 var ég einstæð móðir með 3 börn. Síðustu daga mánaðarins þegar peningurinn var að klárast var skyr það eina sem ég gat keypt handa þeim. Það var langódýrasti matur sem hægt var að fá. Börnin urðu auðvitað leið á að það væri alltaf skyr í matinn. Í byrjun mánaðar fjárfesti ég því í nokkrum flöskum af matarlit, svo þegar sultartíminn hófst setti ég mismunandi liti út í skyrið. Eftir það voru börnin og alltaf mjög spennt að fara að borða. Hvernig skyr skyldi vera í matinn kvöld. Rautt… grænt… blátt….“

„Varnarleysið sem myndast af tómum bankareikningi er algert. Þegar allir reikningar eru komnir á núll veistu að ekkert má koma upp á. Engan má vanta neitt, ekkert má klárast. Þú ert valdalaus gagnvart minnstu uppákomum. Það versta er að þú gerðir ekkert rangt til að setja þig í þessa stöðu.“

„Það er dýrt að vera fátækur. Ef þú hefur ekki efni á að borga reikning borgar þú hann með áföllnum vöxtum seinna. Því lengur sem þú þarft að draga greiðslu, því hærri verður reikningurinn og því erfiðara verður að borga hann. Þetta veldur því að fólk sem býr lengi við fátækt getur aldrei klórað sig út úr henni. Í hvert sinn sem eitthvað „auka“ kemur inn á reikninginn, fer það í að borga niður stökkbreytta vexti af gjaldföllnum reikningum. Innheimtufyrirtæki eru rekin af peningum fátæks fólks og ríki og sveitarfélög sjá þeim fyrir viðskiptum. Þetta er steikt kerfi og augljóslega öfugsnúði. Þetta er eins og að skipa manneskju að hengja sig og rukka hana fyrir reipið.“

„Ég hef lent í að eiga 10-20 þúsund krónur eftir ef allir reikningar voru borgaðir í byrjun mánaðar. Þetta var hræðilegur tími, en það sem situr eftir er varnarleysið og vonleysið. Þú getur ekkert leitað. Allar þær stofnanir sem eiga að aðstoða þig yppa öxlum. Sumar bjóða eitthvað sem þú getur ekki nýtt þér, aðrar svo lítið að það fleytir þér varla út daginn. Þú ert algerlega einn og öllum er sama.“

„Það eru 10 dagar eftir af mánuðinum og þú hangir á síðasta þúsundkallinum. Dóttir þín spyr hvort hún geti komist á skólaball. Það kostar „bara” þúsundkall. Þú réttir henni hann og hugsar að þetta hljóti að reddast. Í raun varstu bara þakklát fyrir að eiga þennan þúsundkall til að gefa henni. Hann hefði auðveldlega getað verið farinn. Fegin að þetta var ekki ferðalag upp á 3000 krónur. Af hverju eru þessir viðburðir alltaf í lok mánaðar?“

„Allt kostar peninga. Það kostar peninga að ganga út úr húsi. Þú kemst ekkert. Það kostar að taka strætó svo þú þarft að hætta við að fara út úr hverfinu. Það er víst ókeypis að fara í göngutúr, en ef þú ferð allra þinna ferða fótgangandi af því að þú átt ekki bíl þá er göngutúr engin skemmtun, heldur kvöð. Að ganga sér til skemmtunar eru forréttindi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: