- Advertisement -

Hræddu karlarnir sigruðu

Ekki var mikil reisn yfir Alþingi síðasta starfsdags þess fyrir hið langa páskafrí sem nú bíður þingmanna. Sérstakt málþóf stundað af eldri mönnum, sem sýnilega óttuðust meira en dauðann sjálfan, að þingið samþykkti að lækka kosningaaldur í komandi kosningum.

Óttinn var allsráðandi. Miðaldra karlar í þingflokkum Sjálfstæðisflokks, Miðflokksins og Flokks fólksins, sem í gær var nefndur Flokkur „unga“ fólksins, stigu í pontu hver af öðrum og meðan hlustað var á þá, var ekki hægt annað en hugsa að fjær ungu fólki verður trúlega ekki komist, en körlunum tókst í gær.

Góður öldrunarlæknir sagði eitt sinn við mig í viðtali að eitt það mikilvægasta við að eldast sé að athuga að félagslegri stöðu sinni. Það er að hlusta á, meðtaka og taka tillit til þes sem yngra fólk hefur að segja. Þau okkar sem tuða, finna að, þykjast vita betur og gera lítið úr minni reynslu þeirra yngri eiga á hættu á að einangrast. Þykja leiðinleg.

Í gær fetuðu margir eldri þingmenn þennan veg. Knúnir áfram af ótta við ungt fólk. Ótta við að þeirra flokkar, þeirra drifkraftur, kynni að veikjast ef ungt fólk fengi að taka þátt í kosningunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar starfsfólk Alþingis hefur sett ræður þingmanna á vef þingsins verður gaman að birta hluta þess sem þingmennirnir sögðu. Bara til gamans. Það var nefnilega djúgt gaman að heyra hvernig þingmennirnir létu. Hvernig þeir reyndu að leyna ótta sínum. Ótta við ungt fólk.

Óttinn er mikið afl. Þeim tókst knúnir áfram af honum að koma í veg fyrir lægri kosningaaldur. Enn og aftur fá þeir stundarfrið. Ekkert meira en það. Jú, skömmin er þeirra.

Sigurjón M. Egilsson.

Með fylgir mynd af Brynjari Níelssyni sem virkar sem leiðtogi hræddu karlana. Hann er líka sá sem var hvað reiðastur í ræðustól. Brynjar er í dag holdgervingur hræddu karlana.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: