- Advertisement -

Hraðlygnir ráðherrar

„Ríkisstjórnin mun ekki komast hjá að hækka veiðigjöldin fyrir afnotin af fiskveiðiauðlind íslensku þjóðarinnar, setja á hátekjuskatt og hækka fjármagnstekjuskatt.“

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, er óspar á stóru orðin þegar hann tjáir sig um ráðherra ríkisstjórnarinnar.

„Nú mæta ráherrar ríkisstjórnarinnar í hvern frétta- og spjallþáttinn á fætur öðrum með innistæðulausar fullyrðingar og jafnvel blákaldar lygar eins og t.d. fjármálaráðherra sagði í Kastljósinu nú fyrir helgina að lífeyri eldri borgara sé 300 þús. kr. Grunnupphæð ellilífeyris er 240 þús. á mánuði, að auki geta sumir fengið aðrar bætur. Það er svo ótrúlegt hvernig fréttamenn láta ráðherra komast upp með svona rangfærslur,“ skrifar Guðmundur Gunnarsson.

Hrein og klár eignaupptaka

Hann skýrir mál sitt betur og skrifar: „Og að auki þá segja tölur almannatrygginga bara hálfa söguna. Bjarni Ben. og Sigmundur Davíð stóðu að lækkun frítekjumarka og settu 45% skerðingarmörk. Sem var og er fordæmalaust. Króna á móti krónu jaðarskattur á skyldusparnað launamanna er ekkert annað en hrein og klár eignaupptaka sem þekkist hvergi nema á Íslandi og veldur því að ójöfnuður á eykst hér á hverju ári.“

Guðmundur Gunnarsson:
„…með innistæðulausar fullyrðingar og jafnvel blákaldar lygar…“

Dekur við auðmenn

Æ fleiri taka sterkt til orða um verk og áætlanir ríkisstjórnarinnar. Við búum hreinlega við ömurlegt kerfi,“ sagði formaður Öryrkjabandalagsins í fréttinni á undan þessari. „Þetta er skelfilegt mál,“ segir Sigurður Jónsson varaformaður Landssambands eldri borgara, í sömu frétt.

„Samgönguráðherra var svo enn einu sinni að víkja sér undan þeirri staðreynd að það verður ekki komist hjá því að hækka skatta til þess að geta rekið og viðhaldið nauðsynlegum innviðum landsins. Hann vill halda áfram dekri sínu á auðmönnum og leggja sérstakan flatan skatt á höfuðborgarbúa,“ skrifar Guðmundur Gunnarsson.

Verður að stöðva ríkisstjórnina

„Eins og hefur komið fram hjá talsmönnum samtaka launamanna þá verður að stöðva aðför ríkisstjórnarinnar að þeim minnst mega sín í þessu samfélagi og það verður gert næsta vetur með þeim verkfærum sem samtök launamanna hafa, „skrifar Guðmundur og klikkir út með þessu:

„Ríkisstjórnin mun ekki komast hjá að hækka veiðigjöldin fyrir afnotin af fiskveiðiauðlind íslensku þjóðarinnar, setja á hátekjuskatt og hækka fjármagnstekjuskatt.“

Fyrirsagnir eru Miðjunnar.

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: