Neytendur Verð á þjónustu hótela og veitingastaða, á Íslandi, var á síðasta ári 23 prósentum yfir því sem það var að jafnaði innan ESB ríkjanna, samkvæmt samanburði Eurostat. Er verð þessara þátta ferðaþjónustunnar einungis hærra í sex löndum í Evrópu af 37 í samanburðinum. Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka.
Meðal þeirra landa sem eru dýrari, heim að sækja, eru hin Norðurlöndin öll. Íslendingar eru þannig ekki hálfdrættingar á við nágranna sína í Noregi í verðlagningunni, en þar í landi var verð á þessum hluta ferðaþjónustunnar 89 prósent yfir meðaltali ESB ríkjanna í fyrra, eða með öðrum orðum 54 prósent hærra en það var hér á landi. „Eflaust skýrir það að miklu leyti af hverju ferðaþjónustan þar í landi er ekki stærri en raun ber vitni. Eftir Noregi kemur Danmörk með verð sem er 49 prósent yfir meðaltali ESB ríkjanna, svo Svíþjóð með 46 prósent og síðan Finnland með 28 prósent. Af vinsælum sumarleyfisstöðum Íslendinga má nefna að verð á þessum þáttum ferðaþjónustunnar var 91 prósent af meðaltali ESB ríkjanna á Spáni í fyrra, 78 prósent á Tyrklandi og 77 prósent í Portúgal. M.ö.o. þá var verð á hótelum og veitingastöðum 26 prósent lægra á Spáni en það var hér á landi en 37 prósent lægra í Portúgal.“
Morgunkornið segir áhugavert að skoða hvort verð á þjónustu hótela og veitingastaða hafi hækkað umfram almennt verðlag hér á síðustu árum. „Myndi það benda til þess að annað og hærra raungengi sé að myndast í ferðaþjónustunni. Þegar raunverð þjónustu hótela og gistiheimila er skoðuð í gögnum Hagstofu Íslands virðist það vera þróunin. Var raunverð þessara þátta þannig 15 prósent hærra á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en það var á sama tímabili 2009 og 24% hærra en það var á sama tíma 2010. Hið sama kemur út þegar gögn Eurostat eru skoðuð. Samkvæmt þeim hefur munurinn á almennu verðlagi á vöru og þjónustu hér á landi og í aðildarríkjum ESB aukist hægar á síðustu árum en þegar verð á hótel og veitingarekstri er skoðað sérstaklega. Þannig hefur munurinn á hótel og veitingum farið úr tæpum fimm prósent árið 2008 í áðurnefnd 23 prósent í fyrra. Á sama tíma hefur munurinn á almennu verðlagi neysluvöru og þjónustu hér á landi og í ESB aukist úr fjórum prósentum í tólf prósent. Þrátt fyrir hækkunina er Ísland ódýrt heim að sækja miðað við fyrir hrun en verð á þjónustu hótel og veitingastaða stóð að meðaltali í áttatíu prósent yfir meðaltali ESB ríkjanna á tímabilinu 2004 til 2006.