„Í Stjórnarskránni segir: „Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.“ Þó virðist stundum sem þessi sannfæring skipti ansi litlu máli. Stundum greiða þingmenn nefnilega atkvæði með málum sem ganga þvert á yfirlýst gildi þeirra – eins og sannfæring þingmannsins sé látin víkja fyrir sannfæringu flokksforystunnar,“ segir í grein Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata, í Fréttablaðinu í dag. Höldum áfram að lesa:
„Nú ætla ríkisstjórnarflokkar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar til að mynda að keyra útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra í gegnum þingið og gera það að lögum. Þetta er í fimmta sinn sem frumvarpið er lagt fyrir þingið. Frumvarpið hefur beðið gallsúrt skipbrot ár eftir ár innan þingsins vegna þess hve vanhugsað, mannfjandsamlegt og hroðvirknislega unnið það er í hvert sinn.
Útgáfa þessa löggjafarþings er engin undantekning. Frumvarpið skerðir réttindi fólks á flótta og brýtur gegn lögbundnum réttindum barna. Ekki nóg með það, heldur mun óskilvirkni í kerfinu aukast. Umsóknum mun fjölga og úrvinnsla mun taka lengri tíma. Sífellt fleiri umsækjendur um vernd munu velkjast um í kerfinu árum saman. Þetta frumvarp er bagalegt á alla kanta.“
Næst dregur Gísli Rafn ályktun: „Núna virðist þó sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi sagt: „Hingað og ekki lengra; við afgreiðum útlendingafrumvarpið eða þetta samstarf er búið.“ Og hvað gera hinir meirihlutaflokkarnir þá? Þeir einfaldlega lúffa. Það er mikilvægara að halda samstarfinu gangandi en að standa fast við sannfæringuna og gildin.“
Grein þingmannsins endar svona:
„Ætli þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafi fundað um málið og komist að þeirri niðurstöðu að innihald frumvarpsins samræmist þeirra gildum? Eða er ekki hitt þó heldur líklegra, að gildin séu látin víkja fyrir sannfæringunni um að flokksforystunni beri að hlýða í einu og öllu?
Fyrir síðustu kosningar básúnaði VG viðstöðulaust um að það „skipti máli hver stjórnar“. Kjósendur þeirra virðast því miður hafa keypt köttinn í sekknum, því þau hefðu allt eins getað kosið Sjálfstæðisflokkinn – svo hverful er sannfæring þingmanna Vinstri grænna.“