„Þetta er svo hörmulegt krakkar, að ég á ekki orð. Þetta er miklu verra en fólk heldur að það sé og við verðum að gera eitthað í þessu.“
Þannig skrifar Aðalheiður Ámundadóttir, lögfræðingur og stjórnarmaður í Afstöðu, félagi fanga, eftir heimsókn í fangelsið á Hólmsheiði. Pistillinn var birtur á Facebook.
Í upphafi skrifar Aðalheiður: „Ég eyddi nokkrum klukkutímum á Hólmsheiði í gær og fór grátandi heim. Ég sat lengi með konunum og hitti svo talsmann strákana í stutta stund. Þarna virðist engin dagskrá vera yfir daginn. Það er ekkert dagsplan og eignlega ekkert við að vera nema sjónvarp. Einn AA fundur á viku fyrir konur. Verulega takmarkaður tími til líkamsræktar (þrátt fyrir að fín aðstaða til líkamsræktrar sé í húsinu, virðist ræktin standa auð og aðstaðan læst fyrir utan takmarkaða opnunartíma). Engin almenn hreyfing, engin útivera. engin vinna, ekkert meðferðarstarf, ekkert tómstundastarf, ekkert uppbyggingarstarf. Ekkert.“
Og ekki virðist vera búið betur að andanum en líkamanum. „Bókasafnið virðist vera úr einu dánarbúi og nær eingöngu rykfallin gömul ritsöfn (íslendingasögur, Laxness, Þórbergur o.s.frv.) sem ég get ekki ímyndað mér að venjulegt fólk lesi sér til dægrastyttingar á mánudagseftirmiðdegi).“
Aðstaðan virðist vera til staðar, en „…til að bæta enn einni snilldinni við þá fá fangar svo lágt fæðisfé að það dugar ekki fyrir mannsæmandi fæði. Þarna er þetta fína hús með allskonar fínni aðstöðu. Fína aðstaðan virðist hins vegar ekkert vera notuð og allir bara í reiðileysi og þunglyndi.“
Aðalheiði var nóg boðið: „Þetta er svo hörmulegt krakkar, að ég á ekki orð. Þetta er miklu verra en fólk heldur að það sé og við verðum að gera eitthað í þessu.
Ég auglýsi hér með eftir fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum sem vilja hjálpa. Hver vill og kann eitthvað í líkamsræktarmálum? Hver kann allskonar og getur boðið upp á námskeið? Hvern vantar starfsfólk í störf sem hægt er að vinna í fangelsi? Hver á bækur sem fólk nennir að lesa? Hver kann að kenna útlendingum íslensku? Hver á pening til að borga fólki sem vill kenna og vera með námskeið? Anyone? Ég bara nenni ekki að bíða eftir að betrunarstarfið falli af himnum ofan. Við verðum bara að gera þetta sjálf held ég.“