Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:
Átta konur eru í hópi þeirra 100 forstjóra á Íslandi sem hæst hafa launin. Þeirra á meðal er Herdís Dröfn Fjeldsted, sem var framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands sem Landsbankinn á ásamt lífeyrissjóðunum, m.a. Gildi, sem er lífeyrissjóður er láglaunakonur greiða í af sínum launum. Herdís fékk í laun 6,1 milljón króna á mánuði.
Það er staðreynd, bara ósköp einföld staðreynd, einfaldasta reikningsdæmi í heimi, að láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði getur þrælað sér út allan ársins hring og hún mun samt ekki ná að vinna sér inn á heilu ári það sem Herdís fékk á einum mánuði. Láglaunakonan gæti starfað við að gæta barna eða annast aldrað fólk, hún gæti helgað sig umönnun og hún ætti samt aldrei séns á því að komast með launatærnar þar sem Herdís hefur sína dýru launahæla. Hún gæti sinnt starfi sínu af umhyggju og innilegheitum, verið til fyrirmyndar í öllum samskiptum og gert miklu meira en hægt er að ætlast til af henni á hverjum einasta degi áratugum saman, og aldrei gæti hún samt látið sig dreyma um neitt sem kemst nálægt því að upplifa að fá í hendurnar þau auðæfi sem Herdís fær um hver einustu mánaðamót.
Og önnur ísköld staðreynd frá Íslandi (íslenskar staðreyndir af íslenskum vinnumarkaði láglaunakvenna er oftast ískaldar) er sú að þegar láglaunakonan loksins kemst á eftirlaun, eftir heila æfi fulla af vinnu og enn meiri vinnu bíður hennar ekki vitneskjan um að nú geti hún loks slakað á, að loksins fái hún réttmæta umbun fyrir allar sýnar vinnustundir, að lífeyrisgreiðslurnar úr lífeyrissjóðnum hennar séu þannig að loksins sé hægt að strjúka um frjálst fjárhagslegt höfuð; ó nei, þvert á móti; í ellinni skal íslenska láglaunakonan fá að halda áfram að hafa aldrei nóg á milli handanna. Og hvers vegna? Jú, af þeirri einföldu ástæðu, þeirri einföldu staðreynd að á Íslandi ríkir geigvænleg stéttaskipting, að á Íslandi eru sumar manneskjur virði allra peninganna, af því að þær vinna við að hugsa ekki um neitt nema peninga og aðrar manneskjur, sérstaklega þær sem vinna við um að hugsa um fólk ekki neins virði. Að þær má arðræna miskunnarlaust alla þeirra vinnuæfi og senda þeim svo fingurinn í ellinni. Það er staðreyndin í kvennaparadísinni.
Sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði og sem fulltrúi láglaunakvenna verð ég að segja og stel þarna smá frá frægu kvóti Stephen Jay Gould:
Ég hef töluvert minni áhuga á því hversu margar konur hafa risið til æðstu metorða í íslenski viðskiptalífi svo þær megi þar ríkja eins og stéttarbræður sínir, auðmennirnir, heldur en því sjúka og viðstöðulausa óréttlæti og arðráni sem láglaunakonurnar verða fyrir.
Segið mér fréttir á hverjum degi af því sem láglaunakonan leggur á sig til að komast af, leyfið fréttum um það að fylla alla fréttatíma. Þá kannski loksins verðum við nógu mörg sem horfumst í augu við skömmina, nógu mörg til að sameinast í að neita að láta hana viðgangast lengur.