Mannlíf Sýningunni Horft inní hvítan kassa lýkur sunnudaginn 3. janúar í B og C sölum Hafnarhússins. Á sýningunni eru verk sem safnið hefur nýlega eignast eftir myndlistarkonuna Katrínu Sigurðardóttur og vinnumódel af nokkrum af hennar helstu verkum. Hér gefst einstakt tækifæri til að kynnast starfi listakonu sem hefur átt verk á fjölmörgum virtum sýningarstöðum víða um heim á síðustu tíu árum.
Á sýningunni Horft inní hvítan kassa eru tvö mikilvæg verk á ferli listakonunnar. Verkin bera sterk höfundareinkenni Katrínar og var annað þeirra, Boiserie, sérstaklega unnið fyrir einkasýningu hennar á Metropolitansafninu í New York árið 2010. Það er nákvæm eftirgerð 18. aldar herbergis á Hôtel de Crillon í París (1777-1780). Verkið er lokaður marghyrndur klefi sem áhorfendur upplifa í gegnum veggspegla sem prýða rýmið. Það sem blasir við er drifhvít kyrralífsmynd, fullbúin húsgögnum og húsmunum með draumkenndu yfirbragði.
Módelin á sýningunni, sem eru frá árunum 2004–2015, eru áhugaverð heimild um vinnuferli, rýmishugsun og nálgun listakonunnar við sýningar og samhengi verka. Þau eru þannig einstök viðbót við heimildasafn Listasafns Reykjavíkur.
Katrín Sigurðardóttir (f. 1967) hefur haslað sér völl sem ein áhugaverðasta listakona Íslendinga og er nafn hennar komið inn í alþjóðlegar uppflettibækur um fremstu listamenn samtímans. Horft inní hvítan kassa er fjórða einkasýningin á verkum hennar í Listasafni Reykjavíkur.