Samfylkingin hefur misst sambandið við upprunann.
Sennilega eru engar ýkjur að segja að margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins séu allt að því reiðir út í forystu flokksins og þingflokk. Enginn er betri til að skýra ástandið en Styrmir Gunnarsson.
„Nýjasta dæmið um firringu stjórnmálastéttarinnar er sameiginlegur fundur þingflokka stjórnarflokkanna sem haldinn var sl. miðvikudag til þess að leggja á ráðin um það hvernig ætti að leggja fyrir, rökstyðja og afgreiða með hraði svonefndan orkupakka 3 frá ESB sem getur haft áhrif sem efnislega jafngilda því að fela Brussel yfirstjórn fiskimiðanna við landið,“ skrifar ritstjórinn fyrrverandi.
Í ljósi þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vita mæta vel hvað andstaðan við orkupakka 3 er mikil meðal almennra flokksmanna er það áleitin spurning hvers vegna þeir virðast ekkert ætla að taka tillit til sterkra tilfinninga þess fólks sem hefur stutt þá til valda.
„Í ljósi þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vita mæta vel hvað andstaðan við orkupakka 3 er mikil meðal almennra flokksmanna er það áleitin spurning hvers vegna þeir virðast ekkert ætla að taka tillit til sterkra tilfinninga þess fólks sem hefur stutt þá til valda,“ segir í grein Styrmis í Morgunblaðinu í dag.
„Sama fyrirbærið er á ferð í ríkisstjórn og að því er virðist þessum sömu þingflokkum í tengslum við þá kjaradeilu sem nú stendur yfir. Enn tala talsmenn ríkisstjórnarinnar á þann veg að þetta sé deila á milli aðila vinnumarkaðar, vinnuveitenda og launþega, þegar augljóst er að kröfugerð verkalýðsfélaganna á rætur í því að ríkisvaldið tók sér fyrir hendur fyrir rúmum tveimur árum að gerast leiðandi í launaþróun á Íslandi, sem Óli Björn Kárason, alþingismaður Sjálfstæðisflokks, benti réttilega á hér í blaðinu fyrir skömmu að gæti ekki gengið upp.“
Styrmir er ekki einungis bundinn við eigin flokk þegar hann skoðar ástand stjórnmálanna: „Þessi blinda á veruleikann í kringum okkur er raunar ekki bundin við stjórnarflokkana eina. Fyrir viku kom flokksstjórn Samfylkingar saman til fundar. Ein af þeim tillögum sem lágu fyrir þeim fundi var frá Kjartani Valgarðssyni og var svohljóðandi:
„Flokksstjórn Samfylkingarinnar ályktar að fella beri úrskurð Kjaradóms frá 29. október 2016 um laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og launakjör ráðherra úr gildi með lagasetningu.“
Hvernig var þessi tillaga afgreidd í flokki sem byggist á sameiningu Alþýðuflokks og hluta Alþýðubandalags (verkalýðsflokka 20. aldarinnar)? Tillögu Kjartans var vísað til stjórnar eða málefnanefndar sem þýðir skv. frétt Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum að hún kemur til umræðu annaðhvort næsta haust eða á næsta ári!
Sama sambandsleysi birtist í því að Viðreisn og Samfylking eru samtaka í því að hvetja til þess að Ísland taki upp evru, á sama tíma og ljóst er að evran er undirrót stórfellds atvinnuleysis á evrusvæðinu og ekki sízt í löndunum við Miðjarðarhaf.“
Hvað ætli valdi því að þegar fólk sem hefur þurft að leggja mikla vinnu í að afla sér fylgis samborgara sinna til þess að ná kjöri til Alþingis og ætti þess vegna að vera betur að sér en aðrir um hjartslátt þjóðfélagsins tekur sæti á þingi og í ríkisstjórn virðist tilfinningin fyrir umhverfinu hverfa á skömmum tíma.