Þorsteinn Sæmundsson:
„Ég hef margoft lýst því yfir að ég vilji leiða þennan lista áfram.“
Þorsteinn Sæmundsson var ekki á fylleríinu á Klaustursbarnum. Þorsteinn er yfirburðaræðumaður. Þorsteinn hefur barist af hörku í þinginu til að knýja fram svör um hvað varð um þau þúsunda íbúða sem fólk var hrakið úr eftir hrunið. Þorsteinn vill áfram leiða lista Miðflokksins í Reykjavík suður. Það vill æðsta stjórn flokksins ekki. Því eru átök í Miðflokknum. Sem kannski eru átök um ekki neitt þar sem staða Miðflokksins er slæm þegar aðeins tveir mánuðir eru til kosninga og með öllu óvíst að flokkurinn fái þingmenn kjörna í Reykjavík.
Uppstillingarnefnd stillti upp lista. Nefndin hafnaði Þorsteini fullkomlega. Setti hann ekki á framboðslistann. „Ég hef margoft lýst því yfir að ég vilji leiða þennan lista áfram,“ sagði Þorsteinn í viðtali við Fréttablaðið.
Heimildir Fréttablaðsins herma að stuðningsmenn og fjölskylda Þorsteins hafi fjölmennt á félagsfundinn til að fella listann. Féllu atkvæði á fundinum þannig að fjórtán vildu styðja staðfesta listann, en þrjátíu greiddu atkvæði gegn honum. Því loga átök innan flokksins.
Síðast þegar flokkurinn hristist stafnanna á milli var þegar Vigdís Hauksdóttir sóttist eftir að verða varaformaður Miðflokksins. Þá var vandanum sópað undir teppið með því að afleggja varaformansembættið. Furðuleg redding. Sem þó bjó til logn í einhvern tíma.
Fjólu Hrund Björnsdóttur, framkvæmdastjóra þingflokksins, var stillt upp í fyrsta sæti framboðslistans. Í það sæti þar sem Þorsteinn Sæmundsson er fyrir.
Í samtali við Fréttablaðið segir Fjóla Hrund: „Það sem gerist er að uppstillingarnefnd kemur fram með ákveðinn lista. Það var skýr áhugi meðal flokksmanna að það yrðu breytingar,“ segir hún og bætir við: „Þarna var kynntur nýr, öflugur listi, en sitjandi oddviti fór þá leið að fella listann, sem er afar sjaldgæft.“
Heimildir Fréttablaðsins herma að allt leiki á reiðiskjálfi innan flokksins og flokksmenn séu ósáttir við framgöngu Þorsteins. Fjóla er hins vegar mjög vinsæl í flokknum og af mörgum sem Fréttablaðið ræddi við, talin einn allra öflugasti liðsmaður flokksins. Þá herma heimildir einnig að mjög hafi verið þrýst á hana að þiggja oddvitasæti og því mikið áfall að hún fái þessa útreið á félagsfundi.“
Er þetta dæmigerð deila um keisarans skegg? Víst er að margt þarf að breytast ef Miðflokknum á að takast að verja þingsæti sín í Reykjavík.