…maður skyldi þá ætla að þungum bagga væri létt af rekstri borgarinnar nú þegar ferðaþjónustunnar nýtur ekki lengur við…
Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri Iceland Exclusive Travels, skrifar kröftuga grein í Moggann í dag.
„Það ætti kannski ekki að koma á óvart að viðbrögð stjórnvalda séu ráðleysisleg enda hefur ferðaþjónustan frá upphafi verið pólitískt munaðarlaus, ólíkt öllum öðrum atvinnugreinum, sem er í sjálfu sér óskiljanlegt þegar um stærstu og mannfrekustu atvinnugrein landsins er að ræða,“ skrifar hún.
„Það er raunar nánast alveg sama til hvaða flokka litið er; sama tómlætið eða jafnvel andúð virðist alls staðar vera að finna. Ég man eftir fjármálaráðherranum okkar fyrir nokkrum árum segja „samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu er það síðasta sem maður hefur áhyggjur af“ og oft má ráða að hagvöxt undanfarinna ára megi rekja til ráðsnilli ráðamanna fremur en uppgangs ferðaþjónustunnar. Nú í vetur birti Reykjavíkurborg skýrslu um hvað ferðaþjónustan kostar borgina mikið, maður skyldi þá ætla að þungum bagga væri létt af rekstri borgarinnar nú þegar ferðaþjónustunnar nýtur ekki lengur við, sú skýrsla er náttúrlega einn skandall út í gegn sem er alveg efni í annan pistil. Því auðvitað er það þannig að Reykjavíkurborg, ríkið og Íslendingar almennt hafa notið góðs af uppgangi þessarar greinar. Ferðaþjónustan hefur lagt grunninn að góðum lífskjörum undanfarinna ára, það sést best á þeim áhrifum sem það hefur nú þegar hún er stopp,“ skrifar Sigrún Elsa, sem er fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
„En á þessu virðist enginn skilningur, ráða má af umræðunni að fólkið sem starfað hefur við ferðaþjónustu og byggt upp greinina eigi bara að skammast sín og hoppa upp í eigið rassgat. Mönnum verður tíðrætt um græðgi og fyrirhyggjuleysi, þetta sé bara eins og með minkabúin, allir hafi bara ætlað að græða og ruðst í það sama og þess vegna sé svona komið núna… Það má á köflum ráða af umræðunni að kórónuveirufaraldurinn sé íslenskri ferðaþjónustu að kenna,“ skrifar hún.
„Það gefur augaleið að fyrirtæki í þessum geira hafa þurft að fara í fjárfestingar og uppbyggingu. Það er ekki hægt að fara úr því að taka á móti 300 þúsund ferðamönnum í á þriðju milljón ferðamanna á 10 árum án þess að það kalli á verulega innviðauppbyggingu. Það hefur ekkert með græðgi eða fyrirhyggjuleysi að gera, það er heilbrigð skynsemi sem komið hefur öllum efnahag landsins vel undanfarin 10 ár.
Það er algjörlega óþolandi fyrir fólk sem starfað hefur að þessari uppbyggingu að sitja nú undir sleggjudómum og árásum. Fólk sem starfað hefur í greininni hefur margt hvert lagt allt sitt í uppbyggingu hennar, allt sitt fé, ómældan tíma árum saman, oftar en ekki langt umfram síminnkandi vinnuviku almennra launþega. Við eigum betra skilið en að vera skilin eftir í óverðskuldaðri skömm. Það má finna einhverja sem hafa grætt á ferðaþjónustu, þó það nú væri, en stærstur hluti fólks sem rekur fyrirtæki og vinnur í greininni er bara venjulegt fólk sem leggur líf og sál í að veita góða þjónustu og skapa sjálfu sér og landinu gott orðspor.
En af óskiljanlegum ástæðum er ferðaþjónustan eins og óhreinu börnin hennar Evu, ríkisstjórnin sér ástæðu til að veita sérstaka styrki til fyrirtækja sem hefur verið „gert“ að loka tímabundið en ekki ferðaþjónustufyrirtækja. Fólk sem rekur t.d. hárgreiðslustofur og hefur getað notað sér 75% hlutabótaleið ríkisstjórnarinnar þann rúma mánuð sem þurfti að loka, og sér nú fram á veruleg uppgrip þegar aftur verður opnað fyrir bókanir, á kost á sérstökum rekstrarstyrkjum sem er gott og blessað en ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa nú verið defacto lokuð í tvo mánuði og sjá ekki fram á að geta fengið viðskiptavini til sín vegna aðgerða stjórnvalda um ófyrirséðan tíma mega éta það sem úti frýs eða í besta falli skuldsetja sig til að borga fastan kostnað og hluta launa.
Þetta lýsir betur en flest annað viðhorfinu til ferðaþjónustunnar; það er bara eins og hún sé fyrir.“