„Þýskaland var ekki vanþróað land óupplýst fólks og illmenna upp úr 1930 fremur en Bandaríkin árið 2016. Heiðvirt fólk brást bara ekki við hættunni meðan það var hægt.“
Stjórnmál / Benedikt Jóhannesson er ónýtur Mogganum í dag. Hann byrjar grein sína af krafti:
„Forseti Bandaríkjanna lætur hermenn ryðja burt friðsömum mótmælendum til þess að hægt sé að taka mynd af honum með biblíu í hendi. Svipmyndin er svo heimskuleg að Hollywood léti sér ekki detta svona þvæla í hug.
Þegar Trump var kosinn óttuðust margir að hann gæti gert skelfilega hluti, en aðrir voru vissir um að Bandaríkin, brjóstvörn lýðræðisins, hefðu næga öryggisventla. Reynslan sýnir þvert á móti að Trump gengur sífellt lengra, hótar andstæðingum, rekur þá sem eiga að gæta þess að reglum sé fylgt og hefur þær að engu. Hann dregur Bandaríkin út úr alþjóðasamvinnu, reisir múra, berst markvisst gegn viðskiptum þjóða á milli og býr til ímyndaða óvini eins og djúpríkið.“
Síðar í greininni skrifar Benedikt: „Alræðisstjórnir fortíðar áttu leynilegar skrár um alla. Koma þurfti fyrir hlerunarbúnaði og skrifa upp skýrslur með ærinni vinnu og fyrirhöfn. Núna göngum við sjálfviljug með búnað sem skráir allar hreyfingar okkar, veit hvað við lesum, hlustum eða horfum á og getur heyrt og tekið upp allt sem sagt er. Það sem meira er, ofurtölvur með gervigreind geta unnið úr upplýsingunum á augabragði. Svona búnað hefðu Stalín og Hitler þegið með þökkum. Þeir sem slökktu á símanum hefðu farið fyrst í fangabúðirnar.“
Og svo kemur: „Þýskaland var ekki vanþróað land óupplýst fólks og illmenna upp úr 1930 fremur en Bandaríkin árið 2016. Heiðvirt fólk brást bara ekki við hættunni meðan það var hægt. Á Íslandi hæðist ákveðinn hópur manna að „góða fólkinu“, jafnvel menn sem áður nutu álits.
Þórarinn Eldjárn orti:
Veðrið er fínt, það er fallegt á Bakka
og fasisminn ríður í hlað.
Velgreiddur maður í vönduðum jakka,
í vasanum morgunblað.
Bakkabræður taka gestinum vel. Í lok kvæðisins vill hann gista. Hverju svörum við þá?“