- Advertisement -

Höfum vont ríkisútvarp en þurfum gott þjóðarútvarp

Ríkisútvarpið dælir yfir okkur innihaldslausum viðtölum við ráðherra ríkisstjórnarinnar

Gunnar Smári skrifar:

Hverjar eru skyldur Ríkisútvarpsins? Nú hefur fréttastofan þar fjallað um kórónafaraldurinn í níu mánuði án þess að nefna það nokkru sinn að við erum að fást við tvöfaldan faraldur; annars vegar covid-19 og hins vegar nýfrjálshyggjufaraldurinn sem skilið hefur heilbrigðiskerfið eftir undirmannað, vanbúið og veikt. Þetta er það sem kallast perfect storm upp á ensku, þegar fara saman orsakir sem hver um sig eru vofveigleg en þegar þær skella saman magnast þær upp og valda stórkostlegum skaða. Þetta er vandinn við kórónafaraldurinn á okkur tíma víða um heim, hann skellur harðast á þeim þjóðum og svæðum þar sem gengið hefur verið lengst í að brjóta niður opinbera þjónustu, þar með talið heilbrigðiskerfið, en víða einnig aðstoð við fátækt fólk, atvinnulaust og utangarðs, heimili aldraðra og sjúkra o.s.frv .

Ríkisútvarpið fær 5000 milljónir króna árlega til að búa til fréttir, umræðu og dagskrá sem gefur okkur raunsanna mynd af samfélaginu og þeim áskorunum sem það stendur frammi fyrir. Þetta er framlag sem er veitt svo samfélagsumræðan sé byggð á viti en ekki vitleysu. Því miður er þetta ekki raunin. Ríkisútvarpið var ætíð um of hallt að valdinu, í fréttum og umfjöllun tók það sé stöðu með valdhöfum og messaði boðskap þeirra yfir þjóðina. En innan um og saman við var iðkuð raunveruleg blaðamennska sem horfði á samfélagið frá sjónarhóli almennings, jafnvel þess hluta hans sem stóð höllum fæti í samfélagi óréttlætis og ójöfnuðar. Ríkisútvarpið var aldrei fremst fjölmiðla að þessu leiti, forystan var iðulega innan jaðarmiðla, ekki meginstraumsins. En á undanförnum árum er eins og Ríkisútvarpið hafi gefist upp og sérstaklega í kórónafaraldrinum. Það dælir yfir okkur innihaldslausum viðtölum við ráðherra ríkisstjórnarinnar og segir allar fréttir af kórónafaraldrinum eins og hlutverk þess sé að vera málpípa stjórnvalda. Það örlar ekki á gagnrýni eða sjálfstæðri rannsókn. Þær raddir sem heyrast eru frá yfirvaldinu, nánast aldrei talað við starfsfólk á vettvangi heilbrigðiskerfisins, fólkið sem veiktist, framlínufólk í skólum eða nokkurn sem hefur reynsluþekkingu af málinu; sjónarhornið er þeirra sem svífa yfir og byggja ákvarðanir sínar á rapporti frá þeim sem fengu rapport frá þeim sem fengu rapport frá þeim sem voru á vettvangi.

Á sama tíma skilar Stundin frá sér úttekt á smitum á Landakoti. Stundin er einskonar samvinnufyrirtæki blaðamanna sem vinna á blaðinu. Almenningur heldur starfinu uppi með því að kaupa áskrift og styrkja blaðið beint. Fólkið á Stundinni skilur ábyrgð sína og fyrir hverja það er að vinna.

Hvers vegna í veröldinni getur starfsfólk Ríkisútvarpsins ekki gert það sama? Er húsaginn þar svo harður að krumla ríkisvaldsins með hótunum fjárveitingavaldsins lamar allan vilja til að segja almenningi frá samfélaginu eins og það er? Er kominn tími til að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins, breyta því í samvinnufélag starfsmanna sem sækja stuðning til almenns félags landsmanna, sem hefur engin tengsl við ríkisvaldið og stjórnvöld heldur lifir sjálft af sjálfstæðum tekjustofni útvarpsgjalds. Það mætti líka úthluta því félagi kvóta í sjávarauðlindinni sem það gæti nýtt eða leigt, mér er sama. En þetta fyrirkomulag sem nú er gengur ekki, það býr til vont Ríkisútvarp þegar okkur vantar gott þjóðarútvarp.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: