Höfum við villst af leið í gildismati?
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skrifaði:
Tók þátt í Silfrinu í dag og ræddi áherslur Pírata gagnvart viðbrögðum við efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar.
Þetta ástand er auðvitað tækifæri fyrir okkur að stunda samfélagslega sjálfsskoðun. Að líta vel og rækilega í spegil og spyrja okkur hvort þetta sé samfélagið sem við viljum vera? Hvort verðmætamat samfélagsins endurspegli raunveruleg verðmæti? Hvort við höfum kannski villst af leið í gildismati?
Eða réttara sagt, hvort stjórnvöld endurspegli raunverulegt gildismat og verðmætamat þjóðarinnar?
Það er fólkið sem skapar verðmæti og við sjáum það auðvitað mjög skýrt núna hverjir það eru sem að halda þessu samfélagi gangandi – Það er heilbrigðisstarfsfólkið okkar – starfsfólk í velferðarþjónustu, starfsfólk í sorphirðu – starfsfólk verslana og annarrar nauðsynlegrar þjónustu – fólkið sem þrífur stofnanirnar okkar – matvælaframleiðendur og kennarar í leik- og grunnskólum. þetta er fólk sem hefur ekki möguleikann á að vinna heima og neyðist til þess að taka aukna áhættu á smiti til þess að halda samfélaginu gangandi en þessi grundvallarverðmæti endurspeglast ekki í launaumslögum þessara stétta.
Greta Thunberg sagði að það þýði ekkert að flýta sér aftur í hversdagsleikann vegna þess að hversdagsleikinn var krísa. Hagvaxtardrifin neysluhyggja gengur á auðlindir jarðar, er ósjálfbær og ósjálfbjarga og við höfum tækifæri nú til þess að byggja betri framtíð. Áherslur okkar Pírata liggja þar – endurskoðum verðmætamatið, styrkjum grænar lausnir, orkuskipti, rannsóknir, þróun og nýsköpun og tökum samfélagslegt samtal um framtíðarfyrirkomulag hagkerfisins.