Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var næst á eftir, Smára McCarty sem var upphafsmaður spillingarumræðu, á Alþingi í morgun.
Katrín sagði þetta meðal annars í ræðu sinni:
„Ég er líka sammála háttvirtum þingmanni um að það er tilgangslaust að hneykslast, þó að auðvitað geri það margir í kjölfar slíks máls, það eru eðlileg viðbrögð, og að mikilvægara sé að horfa til þess sem gert hefur verið og hvað gera þarf. Háttvirtur þingmaður sagði: Við erum ekki saklaus lengur. Ég spyr: Höfum við einhvern tímann verið saklaus? Er ekki staðreyndin sú að mjög margt hefur breyst í íslensku samfélagi frá því að við háttvirtur þingmaður vorum börn að aldri? Heldur háttvirtur þingmaður að svona umfjöllun hefði komið upp þá og vakið þessi viðbrögð? Ég segi nei við því, ég held nefnilega að íslenskt samfélag hafi breyst til batnaðar og að kröfur almennings séu aðrar en þær voru. Og það er gott, það er nefnilega gott. Ég held að við eigum ekki að horfa fram hjá því að undanfarinn áratug, allt frá hruni, hafa umfangsmiklar breytingar verið gerðar á laga- og regluverki sem tengist fjármálaumsvifum og við eigum að halda því til haga þó að ég sé að sjálfsögðu sammála háttvirtum þingmanni um að við getum lengi gert betur í þessum málum og tryggt betur stjórnsýslu okkar í þeim.“