Höfum skimað meira hjá yngra fólki
Gunnar Smári skrifar:
Þetta súlurit sýnir skiptingu smitaðra af covid eftir aldursflokkum, annars vegar á Ítalíu (grænt) og hins vegar á Íslandi (blátt). Munurinn er mikill; hin greindu á Ítalíu er mun eldri og munurinn er mestur í elsta aldurshópnum, 70 ára og eldri. Dánartíðni í þeim hópi er um 23-30% á Ítalíu og 20% hérlendis (hlutfall dáinna af þeim sem hafa klárað sjúkdóminn, annað hvort með bata eða andláti). Ástæðan fyrir að Íslendingar hafa komið vel út úr kórónavírusnum miðað við fjölda skráðra smita liggur í þessu. Ef hlutfallslega jafn margir af smituðum hefðu verið 70 ára og eldri hér eins og á Ítalíu og miðað við dánartíðni hjá þessum aldurshópi hefðu 67 fleiri dáið úr covid en þau átta sem hafa þegar látist. Og við gætum búist við að tala látinna færi upp yfir 130 á næstu vikum. Þetta er þó ekki alveg réttur samanburður. Það er augljóst að Íslendingar hafa skimað mun meira hjá yngra fólki og einkennalitlu á meðan Ítalir hafa frekar skimað hjá þeim sem eru í eldri hópnum. Eftir sem áður sýnir þetta í hverju árangur Íslendinga liggur. Þeim hefur tekist, fyrir árvekni en eflaust líka fyrir guðslukku, að forða því að vírusinn nái til eldra fólks í stórum hópum.