Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:
Davíð Oddsson skrifaði leiðara í blaðið sitt í morgun. Ég las hann og hugsaði: Nei sko, alveg sömu stílbrögð og hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur hjá Fréttablaðinu. Þessi föðurlegi vandlætingartónn, þessi þunglamalegi og ó-innblásni stíll, þetta agalega væl, þessi yfirgengilega íhaldssemi; eins og heimsins leiðinlegasti prestur að halda heimsins leiðinlegustu messu.
Allavega, tilefni skrifa ritstjórans er að við í Eflingu erum vond og óþekk. Við ætlum okkur „allt annað og meira en að vinna að kjarabótum fyrir félagsmenn“. Við höfum stofnað Félagssvið og ætlum að standa í herskárri stéttabaráttu. Og ef það er eitthvað sem Davíð Oddsson veit þá er það að „launþegar“ þurfa allra síst á því að halda.
Davíð er í uppnámi yfir orðalagi fréttatilkynningarinnar frá okkur um Félagssvið, það sé ekki til þess fallið að stuðla að bættum kjörum launþega svokallaðra, þvert á móti lýsi það skorti á tengslum við raunveruleika þann sem félagar í Eflingu búi við. Þau tengsl hefur Davíð Oddsson aftur á móti í ríkum mæli eftir að hafa eytt fullorðinsárum sínum í að rækta þau með miklum sóma þannig að vandfundin er td. sú láglaunakona sem þekkir ekki áhuga forsætisráðherrans fyrrverandi á högum hennar og aðstæðum. Eða sá aðflutti verkamaður. Tengsl við veruleika vinnuaflsins eru Davíð svo mikilvæg og hugleikin að þegar ríkisstjórn hans lagði niður verkamannabústaðakerfið var það aðeins gert til að verka og láglaunafólk sjálft kæmist í betri tengsl við sinn eigin raunveruleika. Það tókst mjög vel. #takkdavíð.
Davíð segir að við höfum þegar valdið miklu tjóni með „framferði okkar“. Og nú er ég hætt að fíflast. Því það er satt; við höfum valdið miklu tjóni. Tjóni á þeirri sjúku heimsmynd sem hann og félagar hans hafa troðið upp á fólk, sadískri heimsmynd valdasjúks fólks sem getur ekki hugsað sér að lifa í sátt og samlyndi við samborgara sína, heldur telur það mannréttindi að fá að arðræna.
Við höfum valdið miklum skaða á heimsmynd þeirra sem þrá ekkert frekar en að halda fólki niðri, með verkefninu um Fólkið í Eflingu, með því að búa til glæsilegt pláss fyrir upplifanir og sögur verka og láglaunafólks, sögur af lífi þeirra sem vinna vinnuna sem lífsstíll Davíðs og vina hans hvílir á.
Við höfum valdið miklum skaða á heimsmynd þeirra sem vilja ekkert frekar en að fá að sundra fólki út frá uppruna og þjóðerni í þeim tilgangi að grafa undan möguleikanum á stéttabaráttu, með því að gera öllum ljóst að aðflutt verkafólk og innfætt verkafólk er fólkið í Eflingu, með því að gera samfélaginu ljóst að vinnuaflið, hvort sem það er fætt hér eða þar, skilur að samstaða er eina leiðin til sigurs. Við höfum valdið miklum skaða á heimsmynd þeirra sem reyna að troða lyginni um meðfætt umönnunareðli kvenna uppá samfélagið í þeim tilgangi að geta verðlagt kvenvinnuaflið sérlega lágt, með því að segja hátt og skýrt að tími þess að halda konum á útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu atvinnulífsins og hins opinbera, tími samræmdrar kúgunar kapítalisma og kvenfyrirlitningar sé liðinn.
Við höfum valdið miklum skaða á heimsmynd þeirra sem lifa eftir hinni fráleitu og andstyggilegu skoðun um eina þjóð í einu landi; landi þar sem allt er gott svo lengi sem hagsmunir eigenda atvinnutækjanna og fjármagnseigenda eru ávallt hafðir í fyrirrúmi og þar sem þau sem eru fædd til að vinna muna alltaf að gleðjast yfir fregnum af því að sumt fólk á Íslandi er með þrjár milljónir í fjármagnstekjur á ári.
Við höfum valdið miklum skaða á heimsmynd þeirra sem halda að þeir megi ljúga því að verka og láglaunafólki að þeir séu handhafar sannleikans um stéttabaráttu, þrátt fyrir að þeir viti nákvæmlega ekkert um lífkjörs annara en þeirra sem koma saman með reglulegu millibili til bænahalds í Valhöll. Við höfum unnið mikinn skaða á heimsmynd þeirra sem halda að þeir eigi Ísland og allt fólkið á því. Og djöfull er það gott hjá okkur og djöfull var það tímabært.
Þessvegna ætla ég bara að vera glöð eftir að hafa lesið þvaðrið, þótt ég hafi þurft að leggja mig af leiðindum þegar ég var búin. Af því að þó að leiðindin séu vissulega yfirgengileg er samt svo gaman að sjá hversu innleiðingarstjórar nýfrjálshyggjunnar, þeir sem komu veröldinni á þann hrikalega stað sem hún er á með trylltri auðhyggju sinni og trylltri hernaðarhyggju sinni, algjöru getuleysi til þess að setja sig í spor annars fólks og algjörri þrá í sigur ríkra, hvítra karla yfir lífríkinu öllu eru í svakalegu uppnámi yfir herskárri stéttabaráttunni.
Að lokum: Já, við ætlum okkur að vinna að meiru en kjarabótum félagsmanna Eflingar. Við ætlum okkur að vinna að því eftir fremsta megni og af algjörri sannfæringu að verka og láglaunafólk sem starfar á Íslandi fái allt það pláss sem það á skilið í samfélaginu, fái það sem það á inni fyrir alla sína ótrúlega miklu og mikilvægu vinni, fái völd og fái það sem tekið hefur verið af því til baka: Samþykki samfélagsins á því að vinnuaflið sjálft ræður því hvaða kröfur það setur fram og hvaða aðferðir það notar í baráttu sinni fyrir efnahagslegu réttlæti sér til handa.
Við ætlum ekki að sætta okkur við að okkur sé haldið undirsettum. Væl og hræðsluáróður frekustu og leiðinlegustu meðlima þessa samfélags breyta nákvæmlega engu um það.