„Ég segi ekkert annað en það að ég er afskaplega döpur,“ sagði Inga Sæland á Alþingi í gær, eftir að Þórhildur Sunna sagði af sér nefndarformennsku.
„Ég bara segi það að ég varð fyrir hálfgerðu áfalli yfir því að þessi unga, efnilega kona, sem hefur stýrt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd af þeim skörungsskap sem ég hef fengið að vera aðnjótandi sem áheyrnarfulltrúi, þá sjaldan sem ég hef haft tækifæri til þess að mæta í þessa nefnd, skuli sjá sig knúna til að stíga til hliðar,“ sagði Inga og hélt áfram:
„Við erum nýkomin með svarta skýrslu um það hvernig okkur líður í vinnunni, hvernig allt of mörgum líður í vinnunni sinni hér. Illa. Hvernig skyldi standa á því? Með alls konar eineltis- og ofbeldistöktum hefur minni hlutinn verið kúgaður undir meiri hlutanum. Það gildir nákvæmlega þarna sem annars staðar. En að þessi unga kona sem hefur verið til fyrirmyndar sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skuli sjá sig knúna til að stíga til hliðar er meira en áfellisdómur yfir okkur sem vinnum hér á hinu háa Alþingi. Ég er sorgmædd yfir því að þetta skuli vera komið fram.“