- Advertisement -

 „Höfum fengið það óþvegið“

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir þær hafa upplifað harðar aðgerðir gegn sér en þær hafa séð gegn öðrum félögum og sérstaklega karlastéttum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Ríkið hefur ekki borgað ljósmæðrum laun fyrir vinnu á árinu 2015. „Það er hart að ekki séu greidd laun fyrir unna vinnu. Þrældómur er bannaður á Íslandi,“ sagði Katrín Sif.

„Við erum brenndar af samskiptum okkar við ríkið. Við höfum þurft að berjast fyrir okkar tilvist og kjörum í 200 ár. Við höfum fengið það óþvegið, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar talaði hún við Þorgeir Ástvaldsson og Frosta Logason.

„Fjölmargar ljósmæður eiga inni laun fyrir sannanlega unna vinnu árið 2015 þegar við vorum í verkfalli. Meira að segja er það vinna sem var unnin á þeim dögum sem ekki var verkfall. Það eru konur sem stóðu sínar vaktir, skiluðu sinni vinnu, ekki einu sinni á verkfallsdögum en hafa ekki fengið greidd laun fyrir vinnuna. Ljósmæðrafélagið fór með þetta fyrir héraðsdóm og vann málið en ríkið áfrýjaði til hæstaréttar. Þar situr málið enn og hefur safnað ryki. Þetta undirstrika hvernig hefur grafist undan traustinu. Það er hart að ekki séu greidd laun fyrir unna vinnu. Þrældómur er bannaður á Íslandi,“ sagði hún.

Hún var spurð hvort ljósmæður hafi fundið andúð gegn sér í þeim átökum sem hafa verið.

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Þetta er annað hvort vanvirðing eða vanþekking gagnvart kvennastéttum. Annað hvort er það. Svo sannanlega sitjum við ekki við sama borð, þegar kemur að samningum, og týpískar karlastéttir.“

„Við höfum upplifað harðar aðgerðir gegn okkur ljósmæðrum sem við höfum ekki séð gegn öðrum félögum og sérstaklega ekki karlastéttum. Það er borðleggjandi munur á framkomu og velvilja. Þetta er annað hvort vanvirðing eða vanþekking gagnvart kvennastéttum. Annað hvort er það. Svo sannanlega sitjum við ekki við sama borð, þegar kemur að samningum, og týpískar karlastéttir,“ svaraði hún.

„Mér þykja þetta góð tíðindi og sérstaklega hversu mikill meirihluti samþykkti tillöguna,“ sagði Katrín Sif um frétt dagsins, það er samþykki ljósmæðra á miðlunartillögu ríkissáttasemjara. „Þetta er búið að vera alveg gríðarleg langt og strangt ferli.“

En er vitað hversu margar þeirra, sem hafa sagt upp, snúa aftur til starfa?

„Nei, það er ekki komið í ljós. Ég hef fylgst með spjallinu milli ljósmæðra og það eru ansi margar sem ætla sér að bíða þar niðurstaðan úr kosningunni lægi fyrir, áður en þær draga uppsagnirnar til baka.  Svo eru aðrar sem ætla að bíða eftir úrskurði gerðardóms.“

Gerðardómur á að úrskurða um meginkröfu ljósmæðra; „…um okkar starf og launasetningu með tilliti til menntunnar og ábyrgðar í starfi.“

Katrín Sif segir að ljósmæður geri sér vonir um frekari launahækkanir eftir úrskurð gerðardóms. „ Við höfum lagt fram gögn þar um sem styðja þá kröfu okkar.“

Hún segir ástandið á Landspítalanum lítið hafa breyst í dag. „Enn vantar margar ljósmæður til starfa. Ástandið hefur ekki breyst mikið.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: