Efnahagsmál Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi, var í samtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, þar sem hann sagði okkur Íslendinga hafa farið illa með krónuna, „..með því að vera ekki með ríkisfjármálin í lagi. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við getum, á einhverjum tímapunkti, tekið upp annan gjaldmiðil eða tekið upp gjaldmiðlasamband við einhverja aðra þjóð. Ég minni á það sem sérfræðingarnir sögðu, sem voru á ráðstefnu í Hörpunni, að þeir ráðlögðu okkar að fara hægt í þeim efnum og byggja okkur upp sjálf fyrst. Einsog þið vitið erum við ekkert í stakk búin til að ganga í myntsamstarf við aðra. Við verðum að laga til heima hjá okkur fyrst.“
Hér á Miðjunni hafa komið fram mat manna um að krónan sé okkur mjög dýr. Vitnum til Gylfa Arnbjörnssonar, forseta Alþýðusambands Íslands:
„Hún er okkur alveg gríðarlega dýr. Við sjáum að íslenski Seðlabankinn er með hæstu stýrivexti í heimi, allavega hinum vestræna. Það kostar okkur mjög mikla peninga. Sex prósent vaxtamunur er mikill. Heimilin skulda um tvö þúsund milljarða og fyrirtækin í landinu um þrjú þúsund milljarða, þetta eru fimm þúsund milljarðar sem hvíla á hagkerfinu og það eru neytendur, og að einhverju leyti útflutningur, sem borga þetta. Að mestu neytendur. Sex prósent af fimm þúsund milljörðum er einfaldlega þrjú hundruð milljarðar. Í vaxtamuninn fer sem nemur einum þriðja af launaútgjöldum fyrirtækjanna í landinu. Svo er því haldi fram að við séum með meira fullveldi og sjálfstæði með því að gera þetta. Ég sé ekki mikið frelsi í þessu fyrir hönd minna félagsmanna.“
En þykir Þorsteini við vera of fá til að halda uppi nútímasamfélagi?
„Við erum langt í frá eina smáþjóðin, eða örþjóðin, sem er sjálfstæð. Þessum ríkjum gengur þokkalega vel mörgum hverjum. Það eru ekki allar þjóðir í heiminum sem eiga land einsog Ísland og auðlindir einsog Íslendingar. Spurningin er bara sú að spila skynsamlega úr þeim og nota afraksturinn til góðrar uppbyggingar,“ sagði þingmaðurinn Þorsteinn Sæmundsson.