- Advertisement -

Höfum ekki efni á því að veikjast

Svava Ragna Hallgrímsdóttir hefur annast aldraða í 22 ár og er félagi í Eflingu.

„Ég hef alltaf þurft að hafa fyrir lífinu einsog allt verkafólk þarf að gera. Umönnun er líkamlega erfitt starf og ég hef ekki endalaust þrek í það. Ég er oft þreytt eftir vinnu. Vaktavinna er slítandi til frambúðar, en í dag vinn ég venjulega dagvinnu, ég er hætt að taka kvöld og helgarvaktir einsog ég stundaði í mörg ár. Ég tek strætó beint í vinnuna og þarf ekki að skipta sem betur fer.

Fyrsta árið vann ég frá átta til tvö á meðan börnin voru á leikskóla. Seinna bætti ég við mig auka vöktum. Þetta var erfitt fjárhagslega á meðan ég var að koma börnunum mínum upp, við gátum ekki veitt okkur neitt. Við áttum aldrei pening og börðumst í bökkum. En ég er bara svo guðslifandi fegin að það rættist úr börnunum mínum og það gengur vel hjá þeim í dag.

Ég passaði mig á því að eiga alltaf nóg mat og að börnin gætu farið í ferðalög með skólanum. Ef ég náði ekki endum saman fékk ég lánað og stóð alltaf í skilum. Mín börn voru ekki í íþróttum en það var alltaf einhver kostnaður í kringum skólann, eins og þessi ferðalög. Börnin mín eru góð við mig í dag og eru sífellt að hvetja mig til þess að huga betur að sjálfri mér. Á árunum áður var ekki setið mikið á hárgreiðslustofum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við fáum svo lítið í kauphækkun og það hverfur eins og skot ef við fáum eitthvað. Sumir virðast alltaf geta fengið kauphækkun eins og þessir alþingismenn. En launamunurinn er orðin allt of mikill. Ég er komin í þessi þrjú hundruð þúsund eftir eftir tuttugu og tveggja ára starfsreynslu en fæ útborgað um það bil 250 þúsund fyrir 80% vinnu. Ég borga 160 þúsund í leigu hjá félagsbústöðum, en hún er vísitölutengd og hefur hækkað á milli mánaða.

Mér fannst bera á því að það var litið niður á fólk sem leitaði til félagsbústaða. Áður þagði ég með þögninni en í dag skammast ég mín ekkert fyrir að hafa leitað til þeirra.
Ég er hlynnt samvinnu og að allir vinni saman. Það er hægt að framkvæma góða hluti í góðri samvinnu. Í dag ber mikið á því að fólk er á eigin vegum. Allt er miklu grimmara í dag, ef maður skuldar húsaleigu eða eitthvað þá er það strax komið í innheimtu og tilheyrandi lögfræðikostnaður fylgir því. Í gamla daga var hægt að semja og tala saman.

Ég sé það á Feisbúkk hvað fólk lifir óöruggu lífi. Þegar einhver veikist þá er fólk að safna á Feisbúkk af því að það á ekki efni á því að veikjast eða vera frá vinnu. Það er allt of mikill stéttarmunur í dag.”

Texti og mynd: Alda Lóa Leifsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: