Höfum aldrei haft það betra: Ríkið snuðar eldra fólk
Endurgreiðsla á tannlæknakostnaði samkvæmt löngu úreltri gjaldskrá. Stendur ekki til að breyta, segir heilbrigðisráðherrann
Við lestur Morgunblaðsins má sjá úttekt á tannlæknakostnaði eldri borgara. Þar kemur fram að endurgreiðslur til þeirra miðast við þrettán ára gamla gjaldskrá. Löngu úrelta.
Reynir Jónsson, tryggingayfirtannlæknir hjá Sjúkratryggingum Íslands, segir við Morgunblaðið, að í fyrra hafi 20.920 ellilífeyrisþegar greitt rúmlega 1,5 milljarða fyrir tannlækningar sínar. Það eru um 53 prósent þeirra sem náð höfðu 67 ára aldri. Af þessum eina og hálfa milljarði fengust fjörutíu prósent eða 600 milljónir endurgreiddar frá SÍ, þrátt fyrir að reglur um endurgreiðslu kveði á um að SÍ eigi að greiða 75 prósent af tannlæknakostnaði þessa hóps. Spurður hvort mikið af fyrirspurnum berist SÍ vegna þessa segir Reynir svo vera. „Jú, eðlilega fáum við mjög mikið af fyrirspurnum og kvörtunum frá lífeyrisþegum vegna þessa. En það er hins vegar á valdi ríkisstjórnarinnar að leysa vandann, ekki SÍ,“ segir í frétt Morgunblaðsins.
Niðurstaðan er einföld, að um helmingur ellilífeyrisþega fer ekki til tannlækna vegna kostnaðar.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir, í skriflegu svari til Morgunblaðsins, að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á þessari endurgreiðslu á fjárlögum þessa árs.