Höfðum verið vaninn við þá hugmynd að forstjórinn væri mikilvægastur allra
Covid afhjúpaði að forstjórinn gat farið í margra vikna sóttkví en fyrirtækið þoldi ekki þriggja daga sóttkví fólksins sem sá um þrifin.
Gunnar Smári skrifar:
Kórónafaraldurinn dró fram hvaða störf voru mikilvæg; heilbrigðisstarfsfólk auðvitað en líka afgreiðsla í búðum, þrif, sorphirða o.s.frv. Mörgum kom þetta á óvart, við höfðum verið vaninn við þá hugmynd að forstjórinn væri mikilvægastur allra, svo fólkið á forstjóraganginum og svo niður launastigann að fólkinu sem þreif skrifstofuna, fólk sem þótti svo ómerkilegt að það var aldrei ávarpað og á það aldrei hlustað; fólk sem tilheyrði ekki vinnustaðnum í raun vegna þess að það var leigt af hreingerningarfyrirtæki eða starfsmannaleigu. Covid afhjúpaði að forstjórinn gat farið í margra vikna sóttkví en fyrirtækið þoldi ekki þriggja daga sóttkví fólksins sem sá um þrifin.
En þetta ætti ekki að hafa komið fólki á óvart. Ef fólk hefur fylgst með stéttabaráttu hinna lægst launuðu undanfarin ár og áratugi, þá snýst hún um snúa við æ þykkari þöggun, æ meiri höfnun og mannfyrirlitningu og að benda á mikilvægi starfa sem sinnt eru af fólki sem misst hefur rödd sína og stöðu í samfélaginu. Og þá er ekki verið að halda fram að láglaunafólk hafi átt sterka rödd eða notið virðingar áður; aðeins að sú veika rödd sem það hafði hefur verið þögguð.
En þetta hefði ekki heldur átt að koma þeim á óvart sem vissu fátt um lífsbaráttu hinna verst launuðu en fylgst hafa með umfjöllun David Graeber um það sem hann kallar bullshit jobs. Hann kastaði fyrst fram þessu hugtaki og reyndi síðan að rökstyðja það betur, og eftir því sem hann þróaði það lengra varð ljósara að þetta var ekki kaldhæðni; það er raunverulega svo að mikill fjöldi fólks er í vinnu sem hefur í reynd engan raunverulegan tilgang, það skiptir sáralitlu hvort þessi störf eru unnin eða ekki. Og það er engin leiðbeining um mikilvægi starfa að skoða launaseðla fólks. Margt vel launað fólk sinnir störfum sem gera engum gott og eru í raun fullkomin tímasóun.
Er þetta virkilega svona? Tja, ef fólk er spurt sjálft, fólkið sem sinnir störfunum og ætti að vita best, kemur í ljós að vel yfir þriðjungur launafólks telur sig sinna bullshit störfum, einhverju sem það sér engan raunverulegan tilgang með. Þetta kom m.a. fram í stórri könnun í Bretlandi, og það er engin ástæða til að ætla að þessu sé öðruvísi farið hér.
Viðbrögðin við kórónafaraldrinum ætti því ekki aðeins að vera þau að lyfta upp mikilvægum störfum, gefa fólkinu sem sinnir þeim hærri laun og meiri virðingu. Við ættum líka að frelsa fólk frá því að sinna störfum sem hafa lítinn eða engan tilgang.
Hér er tveggja ára fyrirlestur David Graeber um bullshit jobs, frá því hann var að kynna bókina sína. Það er ekki til mikið af nýrra efni eftir hann um málið, hann ætlar ekki að ferðast um heiminn og þylja upp gamlar hugsanir sínar. Hann telur mikilvægara að halda áfram að greina samfélagið en að ferðast um eins og sölumaður að selja gamlar hugsanir.