Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, finnur að vinnubrögðum meirihlutaflokkanna. Skipaður var starfshópur til að fjalla um notkun snjalltækja í skólunum.
„Fram kemur í bókun kennara og skólastjóra í framlögðum gögnum að í starfshópnum hafi ekki setið fulltrúar kennara í Reykjavík þótt þeir séu lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem öðrum. Það er óskiljanlegt að lykilaðilum sé ekki boðið til samstarfs í hópi sem þessum,“ segir Kolbrún.
„Hér er reyndar komin skýr staðfesting á því sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda sem fram kom í júlí 2019 að ekki sé nægjanlega hlustað á skólastjórnendur og kennara. Af reglum í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins segja að leiðbeinandi reglur verði að sjálfsögðu að vera án miðstýringar. Það er einmitt það sem felst í því að vera „leiðbeinandi“ . Leiðbeinandi reglur eru ávallt af hinu góða.“