Hjúkrunarfræðingum dugar ekki klappið eitt
Þjóðhátíðardagurinn getur í raun ekki verið ánægjulegur með samningslausa hjúkrunarfræðinga.
Ágúst Ólafur Ágústsson skrifaði:
Eitt af því besta sem íslensk stjórnvöld gætu gert á þessum þjóðhátíðardegi er að semja við hjúkrunarfræðinga. Ekki seinna en núna. Það er virkilega dapurlegt að þessi ríkisstjórn hafi ekki náð kjarasamningum við þessa lykilstétt, og hvað þá á tímum sem þessum. Þetta er starfsfólk sem bókstaflega leggur sig í hættu fyrir okkur hin, bara með því að mæta í vinnuna sína.
Nú eru liðnir um 3 mánuðir þar sem ég beindi fyrirspurn inn á Alþingi til heilbrigðisráðherra um kjaramál hjúkrunarfræðinga. Þá sagði ég:
„Í svona neyðarástandi sjáum við vel hversu mikill auður, í raun þjóðarauður, er í okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólk. Þess vegna sætir furðu af hverju ekki er búið að tryggja hjúkrunarfræðingum nýjan kjarasamning. Hjúkrunarfræðingar hafa nú verið samningslausir við ríkið í meira en á. Síðasti kjarasamningur sem hjúkrunarfræðingar skrifuðu undir var árið 2014 og hafa hjúkrunarfræðingar því ekki samið um kaup og kjör við íslensk stjórnvöld í meira en fimm ár!
Ég verð þess vegna að spyrja hæstvirtan heilbrigðisráðherra, sem er lykilráðherra í þessari ríkisstjórn: Stendur til að ljúka kjarasamningi við hjúkrunarfræðinga? Af öllum stéttum í landinu á þessi stétt ekki að vera samningslaus og hvað þá á þessum tíma. Mun ráðherra beita sér fyrir því að samið verði við hjúkrunarfræðinga? Þá á ég við í þessari viku.“
Þetta sagði ég fyrir næstum þremur mánuðum! Og enn er ósamið.
Hjúkrunarfræðingar hafa sýnt það að þeir standa með okkur og nú er kominn tími til að við sýnum að við stöndum með þeim.
Það þarf að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga eins og var gert við læknana. Við þurfum sárlega á hjúkrunarfræðingum að halda, mjög svo, og megum ekki missa þá í önnur störf vegna kjaramála. Annað væri sóun á mikilli sérþekkingu og mannauð og í raun hættulegt.
En það segir sýna sögu að ljósmæður, þurftu að fara í verkfall á vakt þessarar ríkisstjórnar. Orð ráðherranna og glans-blaðamannafundirnir eru ódýr en gjörðir þessa fólks tala sínu máli.
Það er ekki nóg að klappa bara fyrir hjúkrunarfræðingum.
Þjóðhátíðardagurinn getur í raun ekki verið ánægjulegur með samningslausa hjúkrunarfræðinga.