Skjáskot: Víglínan.

Stjórnmál

Hitti Bjarni naglann á höfuðið?

By Miðjan

May 11, 2021

„Það hefur stundum verið sagt að ef eina verkfærið sem maður hefur er hamar þá sýnist manni að allt sé nagli. Maður sér ekkert annað en það sem maður getur beitt hamrinum á,“ sagði fjármálaráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson á Alþingi, við umræðu um efnahagsmál.

Hann hélt áfram: „Mér verður hugsað til þessa þegar ég heyri svona mikla áherslu lagða á evru af þeim flokkum sem hafa það efst á sinni stefnuskrá að ganga í Evrópusambandið og taka upp nýjan gjaldmiðil, að það er eins og öll vandamál verði leyst með upptöku gjaldmiðilsins. Það er alveg sama hvort það heitir atvinnuleysi eða hátt húsnæðisverð, samdráttur í efnahagsmálum eða endurreisn ríkisfjármálanna, allt á þetta að gerast með nýjum gjaldmiðli. En þegar betur er að gáð hefur okkur Íslendingum farnast mjög vel við að byggja upp lífskjör á Íslandi, sem þetta hlýtur á endanum að snúast um. Hvernig gengur okkur að byggja upp lífskjör, kaupmátt heimilanna, skapa verðmæti í landinu til að standa undir öflugu velferðarkerfi? Hvernig ganga þessi meginverkefni ríkisvaldsins? Þau hafa flest öll gengið afar vel.“

Enn hélt Bjarni áfram:

„Reyndar gekk okkur með okkar eigin gjaldmiðli og í krafti fullveldis, með góða skarpa sýn til framtíðar, að lækka skuldir ríkissjóðs meira á árunum 2011–2019 en nokkurri annarri þjóð í heiminum — með okkar eigin gjaldmiðli. Það er dálítið einkennilegt að standa hér í miðri umræðu um þörfina fyrir nýjan gjaldmiðil einmitt þegar vextir hafa sögulega aldrei verið lægri á Íslandi. Aldrei. Og við höfum haft þokkalegan verðstöðugleika um langt skeið,. Vissulega er ákveðið áhyggjuefni að verðbólga sé núna 4%, en það er engin óðaverðbólga á Íslandi og markaðirnir gera ekki ráð fyrir neinni óðaverðbólgu. Þannig að okkur hefur farnast vel. Við höfum tæki og tól til að bregðast við aðstæðum. Það er ekkert sem kemur okkur undan því að glíma við heimsfaraldur, en ef við höfum trú á framtíðinni og trú á þeim tækjum og tólum sem við höfum og beitum þeim rétt mun okkur áfram farnast vel.“