„Það er höfuðskylda hvers veiðimanns að hitta og aflífa bráðina eins skjótt og fumlaust og hægt er þannig að það valdi dýrinu sem minnstum sársauka. Þetta er grundvallarregla sem gildir um allar veiðar á öllum dýrum á Íslandi og hafinu um kring og er ákvæði þess efnis lögfest í lögum um velferð dýra, sbr. 27. gr. Lögin gilda um öll hryggdýr auk tífætlukrabba, smokkfiska og býflugna en fiskveiðar eru undanskildar. Hvalir falla undir lögin þótt líta verði jafnframt til þess að um hvalveiðar gilda sérlög og eiga þær sér langa forsögu.“ segir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í nýrri Moggagrein.
„Samt er ,að svo í raunheimi að skot geiga og jafnvel reyndustu veiðimönnum tekst ekki í öllum tilvikum að aflífa bráð sína samstundis. Ekki hafa allar hreindýraskyttur hitt í fyrsta skoti og ljóst að særð hreindýr hafa verið elt uppi í dágóða stund þar til þau voru tryggilega aflífuð. Mýs drepast ekki umsvifalaust í öllum tilvikum í gildrum og því fer fjarri að fuglaskotveiðimenn hitti í öllum skotum og því miður særist vafalaust fjöldi fugla sem ekki eru handsamaðir á hverju veiðitímabili.
Þetta er hinn ískaldi veruleiki veiða enda ljóst að meginreglan um að aflífa skuli dýr eins skjótt og hægt er er matskennd og án frekari hlutlægra viðmiðana. Það fer eftir aðstæðum og eðli þeirra veiða sem um ræðir hvort veiðimaður telst hafa brotið regluna eða ekki. Veiðar á villtum dýrum verða heldur ekki lagðar að jöfnu við aflífun búfjár,“ segir einnig í greininni.