„Málflutningur formanns Eflingar er á margan hátt sérkennilegur. Til að mynda má nefna að formanninum verður tíðrætt um að félagsmenn Eflingar séu þeir sem halda öllu gangandi, eins og það er orðað, og knýi áfram hagvöxtinn. Ekki er ástæða til að gera ágreining um þetta, félagsmenn Eflingar, sem eru starfsfólk víða á höfuðborgarsvæðinu, gegna mikilvægu hlutverki. Um þetta efast enginn. Það er engu að síður eitthvað sérkennilegt við það að formaður félagsins telji að þar með eigi að gilda um þessa starfsmenn einhver önnur lögmál en um aðra starfsmenn sem eru í öðrum félögum,“ segir í Staksteinum Moggans í dag.
Víst er að aðför Moggans að Sólveigu Önnu mun harðna á næstu dögum. Mikið er í húfi og eflaust er vonast til að hún bogni eða brotni undan öllum sem hefur verið skrifað eða verður skrifað í Moggann.
„Flest störf eru þannig að þau eru nauðsynleg til að halda öllu gangandi og knýja áfram hagvöxt. Vissulega eru til dæmi um annað en þau eru vonandi fá og ætti þá að leggja af. En störf þeirra sem eru í VR eða SGS eru til dæmis afar mikilvæg, líkt og þeirra sem eru í Eflingu. Það að stilla málum upp með þeim hætti að félagar í einu stéttarfélagi séu á einhvern hátt mikilvægari en aðrir og eigi af þeim sökum að hafa forskot í kjarabaráttunni er ekki sérstaklega gagnlegt,“ segir á sama stað.
Svo er fullyrt: „Það er reyndar svona álíka gagnlegt og það að halda því fram að starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu eigi að vera með hærri laun en starfsmenn annars staðar á landinu. Þessi tilhneiging til að draga menn í dilka, etja hverjum gegn öðrum og efna til ófriðar kann að gagnast vel til að ýta undir verkfallsátök. Hún verður hins vegar ekki til að bæta kjör almennings, hvorki í Eflingu né annars staðar.“
Sko, gætum að einu. Kannski var einhvern tíma bit í Staksteinum. Svo er varla lengur. Jafnvel má taka því sem upphefð að vera viðfangsefni í þeim hnignandi dálki.
Ekki er að efa að Sólveig Anna hefur nógu sterk bein til að þola öll þessi máttlausu skot sem hún fær á sig frá sprungusvæðinu í Hádegismóum.