Fréttaskýring eftir Gunnar Smára um kostnaðinn af afnámi eignaskatta.
Þegar eignaskattar voru aflagðir á Íslandi var ekki beðið um kostnaðarmat, það var bara gert og tekjutapi ríkissjóðs síðan mætt með niðurskurði, skattahækkunum á launafólk og lækkandi vaxta- og barnabótum. Miðað við sömu gögn frá skattinum og tekjusaga.is sækir sín gögn má ætla að tap ríkissjóðs, og þar með almennings af niðurfellingu skatta frá árinu 2005 sé nærri 330 milljarðar króna. Það er á við þrjú ný háskólasjúkrahús og mun hærri upphæð en bjartsýnasta fólkið telur að hægt sé að fá fyrir hlut ríkisins í bönkunum.
Þessir 330 milljarðar króna sem ríkið gaf frá sér dreifðust ekki jafnt millum fólks. 2/3 hlutar, 220 milljarðar króna, fóru til 1/10 af auðugasta fólkinu. Þetta var því fyrst og fremst aðgerð til að flytja fé úr sameiginlegum sjóðum til hinna allra best settu. 1 prósent ríkasta fólkið hefur fengið rúma 50 milljarða króna í lækkun skatta, bara vegna afnáms eignaskatta.
63 prósent fólks græddi ekkert á niðurfellingu eignaskatta. En tapaði út úr samneyslunni sem nemur um 25 til 30 milljörðum á ári; tap sem var mætt með niðurskurði þjónustu, aukinni gjaldtöku, hrörnun innviða eða hækkun skatta á láglauna- og millitekjufólk.
Þessi aðgerð, að fella niður eignaskatta er söguleg. Tíundin á Íslandi var eignaskattur og því höfðu verið hér eignaskattar allt frá árinu 1096 eða í rúm níu hundruð ár þegar nýfrjálshyggjufólki tókst að fella hann niður svo meiri auður gæti safnast á færri hendur og að sá auður yrði nógu mikið afl í samfélaginu til að brjóta niður hreyfingar fjöldans og kröfur þeirra um réttlátt samfélag.
Í dag leggja alþjóðlegar stofnanir á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og OECD, auk flestra meginstraumshagfræðinga eftir Hrun, leggja til hækkun eignaskatta og fjármagnstekjuskatts til að sporna gegn vaxandi ójöfnuði sem grefur undan samfélögum Vesturlanda. Fáar þjóðir gengu eins langt inn blindstræti nýfrjálshyggjunnar og Íslendingar; fæstar þjóðir afnumdu eignaskatta eða lækkuðu fjármagnsskatta eins freklega og Íslendingar.
Til að skapa frið í íslensku samfélagi er nauðsynlegt að taka upp eignaskatta að nýju og finna leið til að endurheimta þá 330 milljarða króna að núvirði sem nýfrjálshyggjufólkið flutti út úr samneyslunni, velferðarkerfinu, innviðum og skattkerfinu til auðugasta fólksins. Það má gera með því að hafa eignaskatta mjög háa um nokkurra ára skeið og nota þá til að stoppa í götin sem afnám eignaskatta skyldi eftir.
Grafið sýnir hvernig afnám eignaskatta skilaði sér ólíkt til fólks eftir eignastöðu. Grafið sýnir almenning skipt eftir eignastöðu, frá 1% hinna snauðustu til 1% hinna ríkustu, og hvernig afnám eignaskatta skilaði sér ólíkt til fólks eftir ríkidæmi. Þetta var aðgerð sem fyrst og fremst var gerð til að bæta hag þeirra sem þegar bjuggu við bestan hag.